Á síðustu dögum hafa strandveiðisjómenn verið á fullu að gera báta sína klára fyrir veiðarnar. Voru handtökin mörg sem þurfti að vinna til að hægt væri að setja bátana á flot. Voru allir fjölskyldumeðlimir nýttir til aðstoðar eins og þessir feðgar sem voru í óðaönn að botnmála Stefaníu SH 82 um liðna helgi. Ljósm. þa.

Strandveiðar hefjast í dag

Alþingi samþykkti síðastliðinn fimmtudag breytingarfrumvarp um fyrirkomulag strandveiða, sem hefjast einmitt í dag, 2. maí. Meðal helstu breytinga nú er að veiðar verða leyfðar í 12 daga í senn í hverjum mánuði, frá maí og til ágúst, og geta veiðimenn þá róið þegar vel viðrar til veiðanna. Með breytingunni er reynt að koma í veg fyrir svokallaðar ólympískar veiðar sem taldar voru stefna öryggi sjómanna í hættu. Þá eru sett inn skilyrði um heimilisfesti sjómanna til að þeir sæki síður of margir inn á sama strandveiðisvæðið. Um það segir orðrétt í hinum nýju lögum: „Eingöngu er heimilt að veita skipi leyfi til strandveiða miðað við það landsvæði þar sem útgerð skips á heimilisfesti.“ Þá segir auk þess um vald ráðherra til að stöðva veiðar ef afli fer umfram leyfilegt magn: „Ráðherra getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðiskipa fari umfram það magn sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir árið 2018.“

Þverpólitísk samstaða náðist um afgreiðslu málisins á þingi, að sögn Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur alþingismanns VG og formanns atvinnuveganefndar. Í aðsendri grein í Skessuhorni í dag útskýrir Lilja Rafney ítarlega það sem í frumvarpinu felst.

Líkar þetta

Fleiri fréttir