Ætla sjálfir að leggja ljósleiðara í Húsafell

Eigendur Ferðaþjónustunnar í Húsafelli hyggjast leggja ljósleiðara úr Reykholti í Húsafell. Þetta kemur fram í fundagerð byggðarráðs Borgarbyggðar frá 16. apríl sl. Að sögn Þórðar Kristleifssonar á Húsafelli verður hafist handa við lagningu ljósleiðara um mitt sumar. „Vegna okkar reksturs er nauðsynlegt að bæta nettenginguna í Húsafelli og það þolir enga bið,“ segir Þórður í samtali við Skessuhorn. Í Húsafelli er ýmis ferðaþjónustustarfsemi, hótel og sumarhús og því fylgir mikill fjöldi ferðafólks. „Nettengingin sem nú er í Húsafelli byggir á 4G sambandi sem þolir ekki það álag sem fylgir þessum fjölda ferðamanna,“ segir Þórður og heldur áfram. „Sveitarfélagið er vissulega að leggja ljósleiðara en það er umfangsmikið verkefni sem tekur tíma. Við getum í raun ekki beðið í þessi tvö eða þrjú ár sem það tekur þar til ljósleiðari myndi koma í Húsafell.“

Forsvarsmenn Ferðaþjónustunnar í Húsafelli sendu tilkynningu til Borgarbyggðar um fyrirhugaða lagningu ljósleiðara þar sem sveitarfélaginu er boðið að taka þátt í og nýta sér framkvæmdirnar. „Við höfum aðeins fengið jákvæð viðbrögð frá sveitarfélaginu. Þó gerum við ekki ráð fyrir að neinar ákvarðanir verði teknar fyrir kosningar,“ segir Þórður og bætir því við að hann sé bjartsýnn á að vel verði tekið í verkefnið innan sveitarstjórnar. „Ég er bjartsýnn á að sveitarfélagið óski eftir að samnýta verkefnið með okkur.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir