Eftir bílveltu. Ljósm. úr safni Skessuhorns.

107% verðmunur á bílatryggingum

Mjög mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verði fyrir bílatryggingar í nýjustu könnun Verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands sem kynnt var í dag. Í könnuninni kemur fram að 107% munur er á milli hæsta og lægsta tilboðsins í ábyrgðartryggingu og kaskótryggingu. Lægsta verðið var hjá VÍS, 129.559 kr. fyrir ábyrgðartryggingu og 43.631 kr. fyrir kaskótryggingu, samtals 170.190 krónur. TM var með hæsta tilboðið, 261.061 kr. fyrir ábyrgðartryggingu og 90.800 fyrir kaskótryggingu, samtals 351.861 krónur. Könnunin var gerð í samstarfi við bifreiðaeigenda sem fékk tilboð í lögboðnar ökutækjatryggingar ásamt bílrúðutryggingu og kaskótryggingu fyrir árgerð 2009 af VW Polo. Könnun verðlagseftirlitsins er staðfesting á því að bíleigendur þurfa reglulega að leita tilboða í lögbundnar ökutækjatryggingar. Ekki síst er það mikilvægt í ljósi þess að öllum bifreiðaeigendum er skylt að kaupa ábyrgðartryggingu fyrir ökutæki sitt ásamt slysatryggingu ökumanns og eiganda. Í könnun ASÍ var því gerður verðsamanburður á þessum tryggingum auk bílrúðu- og kaskótryggingar en kaskótryggingin veitir tryggingarvernd ef hinn tryggði veldur sjálfur tjóni á eigin bifreið vegna áreksturs og veltu eða ef tjón verður vegna innbrots, þjófnaðar eða skemmdarverka.

Tiltölulega lítill munur er á tilboðunum frá Verði og Sjóvá en ábyrgðartryggingin var ódýrari hjá Sjóvá, 159.332 kr. en 165.558 kr. hjá Verði. Kaskótryggingin var hins vegar ódýrari hjá Verði, 52.663 kr. samanborið við 62.432 kr. hjá Sjóvá. Heildarverð fyrir ábyrgðartryggingu og kaskótryggingu hjá Verði var 218.221 kr. en 221.766 kr. hjá Sjóvá.

Þó að verð vegi þungt þegar tekin er ákvörðun um val á tryggingarfélagi þarf líka að skoða fjárhæð sjálfsábyrgðar, sem er sá peningur sem eigandi þarf sjálfur að reiða af hendi vegna tjóna. Engin eigin áhætta eða sjálfsábyrgð er á ábyrgðartryggingu hjá VÍS. Hjá TM leggst 35.000 kr. viðbótariðgjald eftir tjón umfram 200.000 kr. en það fellur í gjalddaga þegar tryggingafélagið hefur greitt fyrrnefnda upphæð. Sjálfsábyrgðin hjá Verði er 34.600 kr. en Sjóvá innheimtir iðgjaldsauka að upphæð 25.300 krónur vegna tjóna sem fara yfir 100.000 krónur. Í öllum þessum tilfellum er verið að tala um sjálfsábyrgð vegna ábyrgðartryggingar (skyldutryggingar) en eigin áhættu vegna kaskótryggingar má sjá í tölfunni. Þá skal tekið fram að iðgjöld hjá tryggingafélögunum geta hækkað við endurnýjun í kjölfar tjóns.

„Miklar verðhækkanir hafa orðið á bílatryggingum síðustu ár en hækkanirnar eru langt umfram hækkun á vísitölu neysluverðs. Á árunum 2014-2018 hafa bílatryggingar hækkað um 25% á meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 7%. Bílatryggingar hafa því hækkað um 17 prósentustig umfram vísitölu neysluverðs þrátt fyrir að bílar hafa lækkað um 13% í verði og varahlutir um 20% á sama tímabili. Ef tímabilið frá 2016-2018 er skoðað hækkuðu bílatryggingar um 15% en vísitala neysluverðs um 4% og hækkuðu bílatryggingar því um 11% umfram verðlag á því tímabili,“ segir í tilkynningu frá ASÍ.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.