Smellur er hin besta skemmtun

Söngleikurinn Smellur var frumsýndur fyrir fullu húsi í Bíóhöllinni á Akranesi siðastliðið föstudagskvöld. Söngleikurinn er færður á fjalirnar af nemendum á unglingastigi í Grundaskóla. Höfundar verksins eru Einar Viðarsson, Gunnar Sturla Hervarsson og Flosi Einarsson, en þeir kenna allir við skólann. Fjörtíu nemendur stíga á svið í sýningunni en alls koma áttatíu nemendur að uppsetningunni með einum eða öðrum hætti.

Söngleikurinn gerist á níunda áratugnum og er verkið svipað miklum 80s anda, allt frá búningum til textans. Gestir sem muna þá tíma þegar Wham og Duran Duran réðu ríkjum fá þátíðarþrá fyrir allan peninginn þegar persónur drekka sódastrím eða láta þreytuna líða úr sér með aðstoð fótanuddtækisins á meðan hlýtt er á dómsdagsfréttir kaldastríðsáranna.

Húmorinn ræður ríkjum í sögunni og Smellur er mjög fyndinn söngleikur. Mikið var hlegið í salnum og oft þurftu leikarar að bíða augnablik áður en þeir gátu haldið áfram á sviðinu til að leyfa áhorfendum að ná andanum.

Tónlistin í verkinu er samin í anda stórsmella níunda áratugarins og er ljómandi skemmtileg. Krakkarnir fluttu músíkina af öryggi og yfirvegun en því miður heyrði blaðamaður ekki nægilega vel í söngnum í öllum lögunum. En það sem hann heyrði kunni hann að meta. Söngatriðin eru studd með metnaðarfullum dansatriðum sem dansarar sýningarinnar skiluðu frá sér af stakri prýði og mikilli nákvæmni. Af frumsýningunni var raunar ekki annað að merkja en að verkið allt hafi verið mjög vel æft og alls staðar vandað til verka. Öllum sem stigu á stokk virtist líða vel á sviðinu, ekki var að sjá neinn taugatitring í hópnum. Leikararnir stóðu sig afar vel. Í stórum hlutverkum sem smáum má sjá marga mjög efnilega leikara sem gætu lagt fagið fyrir sig í framtíðinni ef þeim sýndist svo.

Sviðsmyndin er litrík og flott og grípur auga áhorfandans. Með því að kveikja ljós á bakvið hana á mismunandi stöðum breytist hún eftir því hvað er til umfjöllunar á sviðinu hverju sinni. Er það mjög einföld og sniðug lausn til að gera leikmyndina lifandi.

Flæði sýningarinnar er mjög gott og aldrei var dauður tími á frumsýningarkvöldinu. Aftur er það merki um að verkið hafi verið vel æft, leikstjórn góð og allir vel undirbúnir hvort sem þeir stóðu á sviðinu, að tjaldabaki eða úti í sal.

Viðtökur frumsýningargesta voru á eina leið; allir virust hæstánægðir með sýninguna og fengu krakkarnir standandi lófatak að sýningu lokinni. Smellur er enda mjög vel heppnuð og flott sýningin en umfram allt hin besta skemmtun.

kgk

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira