Þjónustuformið NPA nú innleitt með lögum

Alþingi hefur samþykkt heildarlög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lög um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Lagabreytingarnar fela m.a. í sér lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA). Lögin um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir gilda um fatlaða einstaklinga sem þurfa þjónustu í meira en 15 klukkustundir á viku. Ákvæði laga um félagsþjónustu gilda um þá sem þurfa minni aðstoð. Þá hefur verið skerpt á eftirliti ráðherra með þjónustu sveitarfélaga og reglur um samninga við einkaaðila og starfsleyfisveitingar til einkaaðila eru skýrðar.

Þjónustuformið NPA sem hingað til hefur verið rekið sem tilraunaverkefni hefur nú fengið stoð í lögum og hugmyndafræðin um sjálfstætt líf innleitt í öll ákvæði laganna. Fjallað er sérstaklega um frístundaþjónustu við fatlaða nemendur og úrræði fyrir börn með miklar samþættar geð- og þroskaraskanir. Kveðið er á um skyldur sveitarfélaga til að upplýsa einstaklinga um rétt þeirra til þjónustu og hvaða úrræði standa þeim til boða meðan beðið er eftir þjónustu sem samþykkt hefur verið þeim til handa. Fest er í lög ákvæði um sérstaka samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks og einnig skylda ráðherra til að leggja fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

Með breytingu á lögum félagsþjónustu sveitarfélaga eru gerðar ýmsar breytingar á skipulagi, stjórn og hlutverki félagsmálanefnda og hnykkt á eftirlitshlutverki ráðherra. Skýrar er kveðið á um feril ágreiningsmála og málskot innan stjórnkerfisins. Þá er kveðið sérstaklega á um samráð við notendur félagsþjónustu og um störf notendaráða. Fjallað er um samninga við einkaaðila og starfsleyfisveitingar til einkaaðila sem hyggjast veita þjónustu samkvæmt frumvarp­inu. Loks eru gerðar breytingar á kaflanum sem snúa að félagslegri heimaþjónustu, akstursþjónustu og húsnæðismálum.

Líkar þetta

Fleiri fréttir