Líkur á að fyrsti heimaleikur Víkings verði á sjómannadaginn

Framkvæmdir við Ólafsvíkurvöll eru nú á síðustu metrunum. Þegar þetta er skrifað er búið að aka grófa undirlaginu í völlinn, jafna það út og þjappa. Því næst verður borið jöfnunarlag af fínna efni í völlinn. Áður en hægt verður að leggja gervigrasið sjálft þarf svo að malbika í kringum völlinn. Vonast er til að öll þessi vinna gangi fljótt og vel fyrir sig og að hægt verði að byrja að leggja gervigrasið á völlinn í kringum fyrstu helgina í maí. Víkingur byrjar keppni í Inkasso deildinni laugardaginn 5. maí þegar liðið sækir ÍR heim.

Meðfram þessari vinnu við völlinn verður farið í að reisa vallarhúsið. Byggt verður einingahús frá Loftorku Borgarnesi og ætti uppsetningin þess ekki að taka langan tíma. Ekki er talið líklegt að völlurinn verði tilbúinn í tíma fyrir fyrsta heimaleik Víkings laugardaginn 12. maí sem verður gegn HK. Hefur leikurinn verið færður og mun verða spilaður í Kórnum í Kópavogi, samkvæmt heimasíðu KSÍ. Völlurinn ætti hins vegar að vera klár og mögulegt að leika fyrsta heimaleik Víkings á nýja gervigrasvellinum á sjómannadaginn, sunnudaginn 3. júní, en þá mæta Selfyssingar í Ólafsvík.

Líkar þetta

Fleiri fréttir