Kalla eftir dæmum um stórhækkun húsaleigu

VR hefur auglýst eftir dæmum og gögnum frá fólki sem hefur orðið fyrir óeðlilegri hækkun húsaleigu. Fullum trúnaði er heitið. „Á undanförnum misserum hefur heyrst af ótrúlegum dæmum um svívirðilega hækkun á húsaleigu fólks sem getur ekki hönd fyrir höfuð borið á vægðarlausum leigumarkaði,“ segir í tilkynningu. „Við hjá VR viljum berjast af alefli gegn þessari vá og biðlum því til landsmanna um að senda okkur í trúnaði gögn með dæmum um slíkar hækkanir.“ Hægt er að senda dæmin á netfangið vr@vr.is. „Dæmi eru um leigufélög sem skirrast ekki við að demba tugprósenta hækkunum leigugjalds á varnarlausar fjölskyldur sem að öðrum kosti lenda á götunni. Við hjá VR viljum vera rödd þessa fólks sem flest er í þeirri stöðu að geta ekki tjáð sig um málið af ótta við að missa húsnæði fjölskyldunnar.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir