Kerfisgalli kom upp þegar bæjarfélagið opnaði bókhald sitt

Akraneskaupstaður er í hópi sveitarfélaga sem stíga nær framtíðinni og opna bókhald fyrir almenningi. „Með opnu bókhaldi er hægt að skoða og sækja fjárhagslegar upplýsingar um Akraneskaupstað beint úr bókhaldskerfi bæjarins. Verkefnið sem hér um ræðir er unnið í samvinnu við ráðgjafasvið KPMG á Íslandi og er því skipt upp í tvo þætti, þ.e. tekjur og gjöld. Leitast var við að gera efnið notendavænt og aðgengilegt en auk þess var sérstök áhersla lögð á að hafa framsetningu skýra og einfalda,“ segir í tilkynningu frá bæjarfélagsinu.

Eftir að Akraneskaupstaður opnaði rafrænt bókhald sitt fyrir almenningi um klukkan 10 í gærmorgun kom í ljós alvarlegur kerfisgalli og var því lokað að nýju um klukkan 17 sama dag. Upp kom öryggisgalli í kerfinu þar sem hægt var að kalla fram viðkvæmar persónulegar upplýsingar. KPMG, sem vann þetta verkefni fyrir Akraneskaupstað, sendi í kjölfar öryggisgallans eftirfarandi skýringar:

„Við uppbyggingu og upplýsingagjöf í opnu bókhaldi hafa sérstakar ráðstafanir verið gerðar til að koma í veg fyrir að viðkvæmar upplýsingar séu birtar á vefnum. Ekki er um lifandi gagnatengingu við fjárhagsbókhald að ræða heldur eru gögn uppfærð handvirkt og birt eftir ítarlega yfirferð. Með nýlegri uppfærslum á skýjaumhverfi Microsoft þar sem undirliggjandi Power BI kerfi er vistað opnaðist fyrir þann möguleika að skoða einstakar færslur í lánadrottnabókhaldi. Hvað og hversu mikið kemur fram í færslutexta er háð verklagi einstakra sveitarfélaga. Þessi möguleiki er ekki augljós almennum notendum. Ítarlegt prófunarferli var undanfari birtingar en prófun gagnvart þessum möguleika var ekki framkvæmanleg þar sem mælaborð voru birt fyrir breytingu á þessar virkni hjá Microsoft. Brugðist hefur verið við þessu þannig að undirliggjandi upplýsingar eru ekki lengur aðgengilegar en jafnframt hefur mælaborðum fyrir opið bókhald verið lokað.“

Í tilkynningu á vef Akraneskaupstaðar segir að opna bókhaldinu hafi verið lokað og svo verði áfram meðan farið er yfir verklag til að gæta fyllsta öryggis varðandi þau gögn og upplýsingar sem birt verða framvegis. „Bókahaldið verður ekki opnað á ný fyrr en búið er að prufa kerfið til þaula. Akraneskaupstaður lítur málið mjög alvarlegum augum og harmar að þetta hafi gerst.“

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Gleðilegt sumar!

Skessuhorn óskar lesendum sínum, ungum sem gömlum, til sjávar og sveita, gleðilegs sumars.