Birkir Blær Óðinsson með hljóðnemann, ásamt hljómsveit sem spilaði undir í flestum atriðum gærkvöldsins. Ljósm. Skessuhorn/mm

Birkir Blær sigraði í Söngkeppni framhaldsskólanna

Framlag Menntaskólans á Akureyri, þar sem Birkir Blær Óðinsson söng lagið I put a spell on you, eftir Screamin’ Jay Hawkins, bar sigur úr býtum í Söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi. Keppnin fór fram í Íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi og var engu til sparað til að gera keppnina eins glæsilega og raun bar vitni. Um það geta áhorfendur á RUV vitnað, en keppnin var sýnd í beinni útsendingu. Það vakti athygli gesta og ekki síst dómnefndar, sem hafði það erfiða hlutverk að velja sigurvegara, hversu jöfn og góð keppnin var að þessu sinni. Einar Bárðarson formaður dómnefndarinnar sagði í samtali við Skessuhorn að þessi keppni hefði verið sú jafnbesta sem hann hefði fylgst með frá upphafi Söngkeppni framhaldsskólanna. Það var svo Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra sem afhenti hljóðnemann, verðlaunagripinn sem keppt er um. Lét hún þess getið í ávarpi sem hún flutti hversu góð keppni þetta hafi verið og kvaðst ekki hafa áhyggjur af gæðastarfi í tónlistarnámi víðsvegar um landið. Unga fólkið sem steig á svið hafi sannað það.

Samhliða keppninni fór fram símakosning og völdu landsmenn framlag Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra best. Fyrir skólann söng Valdís Valbjörnsdóttir sem túlkaði lagið Stone Cold eftir Demi Lovato.

Alls voru það 24 framhaldsskólar sem sendu atriði til keppni. Þar af voru þrír framhaldsskólar af Vesturlandi; Menntaskóli Borgarfjarðar, Fjölbrautaskóli Snæfellinga og Fjölbrautaskóli Vesturlands á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir