Betra að sama höndin eigi og reki skólann

Samkomulag hefur náðst um kaup Eyja- og Miklaholtshrepps á hlutum Borgarbyggðar, Dalabyggðar og Snæfellsbæjar í húseignum Laugargerðisskóla. Skólinn var á sínum tíma rekinn af sveitarfélögunum fjórum en undanfarin ár hefur reksturinn verið í höndum Eyja- og Miklaholtshrepps. Nemendur skólans koma úr Eyja- og Miklaholtshreppi og gamla Kolbeinsstaðahreppi, sem nú tilheyrir Borgarbyggð. Um skólagöngu þeirra í Laugargerði gildir þjónustusamningur milli Eyja- og Miklaholtshrepps og Borgarbyggðar. „Sveitarfélögin fjögur sem áður stóðu sameiginlega að rekstri Laugargerðisskóla eru öll eigendur að húsakosti skólans, með mismunandi hlutfalli. Eyja- og Miklaholtshreppur á núna 43% af húseignunum. Það sem eftir stendur skiptist á milli hinna sveitarfélaganna,“ segir Eggert Kjartansson, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, í samtali við Skessuhorn. „Allt þetta kjörtímabil og meira að segja lengur hefur verið samtal í gangi milli sveitarfélaganna um kaup Eyja- og Miklaholtshrepps á eignarhluta hinna sveitarfélaganna. Nú hefur samkomulag náðst. Ég er mjög ánægður með að þetta sé loksins í höfn og það ríkir samstaða um þetta mál meðal þessarra fjögurra sveitarfélaga,“ bætir hann við.

 

Sama höndin eigi og reki skólann

Eggert telur eðlilegast og heillavænlegast til frambúðar að sveitarfélagið sem rekur skólann sé einnig eigandi skólahúsanna. „Það er erfitt að hreppurinn sjái um og kosti viðhald á eignum sem hann á ekki einu sinni helminginn af. Á næstu árum liggur fyrir að fara þurfi í töluvert viðhald, til dæmis skipta um þak á íþróttahúsinu. Við fengum tilboð í það verk fyrir sumarið sem hljóðaði upp á 15 milljónir króna. Ákveðið var að hætta við það að sinni, m.a. af því að ekki var búið að ganga frá eignaskiptingunni. Það er erfitt að réttlæta að sveitarfélagið leggi út fyrir svona miklum viðhaldskostnaði nema það eigi eignirnar. Ekkert sveitarfélag myndi gera það,“ segir hann. „Þegar á að setja pening í viðhald eigna þá er eðlilegt að eignirnar séu á sömu hendi og þeirri sem sér um að reka þær,“ bætir hann við.

Sveitarfélögin eru eitt af öðru að afgreiða málið fyrir sitt leyti þessa dagana. Kveðst Eggert eiga von á því að samningar verði undirritaðir á næstunni.

Líkar þetta

Fleiri fréttir