Áætlun um átak í byggingu hjúkrunarrýma

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti í síðustu viku áætlanir um stórátak í uppbyggingu hjúkrunarrýma á landsvísu. Áætlunin nær til ársins 2023. Í henni er dregið fram hvernig auknir fjármunir til uppbyggingar og reksturs hjúkrunarrýma samkvæmt fjármálaáætlun fyrir árin 2019 – 2023 gera kleift að ráðast í framkvæmdir við rúmlega 300 hjúkrunarrými á landsvísu, til viðbótar við þau byggingaráform sem áður hafa verið kynnt. Áætlaður byggingakostnaður við eitt hjúkrunarrými nemur um 36,5 milljónum króna. Heildarkostnaður vegna framkvæmda við þessi rúm 300 hjúkrunarrými nemur því um 10,5 milljörðum króna. Þar af er hlutur ríkisins tæplega níu milljarðar króna.

Yfirstandandi og áformaðar framkvæmdir við uppbyggingu hjúkrunarrýma, að meðtöldum þeim áformum sem heilbrigðisráðherra kynnti, taka til uppbyggingar og endurbóta á um 790 hjúkrunarrýmum fram til ársins 2023. Fjölga á nýjum hjúkrunarrýmum um 550 á landsvísu og bæta aðbúnað og húsakost á 240 rýmum að auki. Samkvæmt áætluninni er gert ráð fyrir að byggð verði 24 hjúkrunarrými á Vesturlandi. Flest þeirra ná til til endurbóta á 18 hjúkrunarrýmum í Stykkishólmi. „Unnið er að samningsgerð við sveitarfélagið,“ segir í áætluninni sem Svandís Svavarsdóttir. Sturla Böðvarsson bæjarstjóri í Stykkishólmi staðfestir í samtali við Skessuhorn að samningar um lagfæringar og breytingar á húsakosti í Stykkishólmi standi nú yfir við ráðuneytið og væntir hann þess að þær hefjist þegar í haust.

Líkar þetta

Fleiri fréttir