Pungsig tekur til hendinni. F.v. Tómas Guðmundsson, Baldur Þórðarson og Kristján Gauti Karlsson.

Pungsig blæs til útgáfu- og afmælistónleika

Pönksveitin Pungsig stendur á tímamótum. Sveitin fagnar tíu ára afmæli sínu um þessar mundir og sendir frá sér sína fyrstu breiðskífu. Að eigin sögn hefur sveitin á undanförnum árum haslað sér völl í íslensku pönksenunni sem hljómsveit sem flestir hafa heyrt um en ekki heyrt í.

Pungsig var stofnað haustið 2008 af Kristjáni Gauta Karlssyni, bassaleikara og söngvara, og Tómasi Guðmundssyni gítarleikara. „Tómasi var falið að finna nafn á sveitina og eftir árangursríka klósettferð stakk hann upp á nafninu Pungsig,“ er haft eftir hljómsveitinni í fréttatilkynningu. „Við stofnun var jafnframt ákveðið að Baldur Þórðarson skyldi slá taktinn, en honum var reyndar ekki tilkynnt um þann ráðahag fyrr en nokkrum dögum síðar. Hefur skipan sveitarinnar haldist óbreytt allar götur síðan.“

Fyrsta breiðskífa Pungsigs, sem samnefnd er sveitinni, kemur út á laugardaginn. Er hún gefin út í litlu vínylupplagi, auk þess sem hún verður gerð aðgengileg á streymisveitum í kjölfar útgáfunnar. „Upplag vínylplötunnar er löngu uppselt en hægt er að panta plötur í næstu sendingu í gegnum Facebook-síðu Pungsigs,“ segja sveitarfélagar.

Til að fagna útgáfunni og afmælinu ætlar Pungsig að bjóða til stórtónleika á Gauknum í miðbæ Reykjavíkur að kvöldi útgáfudagsins, laugardaginn 28. apríl. „Æfingar fyrir tónleikana hafa gengið illa og hefur lokaæfingin verið blásin af. Undirbúningur er því eins og best verður á kosið, því það er algjört lykilatriði í pönkinu að flutningur tónlistarinnar sé ekki til fyrirmyndar,“ segja hljómsveitarmeðlimir.

Útgáfu- og afmælistónleikar Pungsigs hefjast kl. 22:00 á Gauknum, Tryggvagötu 22 í Reykjavík. Aðgangur er ókeypis. Um upphitun sér hafnfirska pönksveitin Drulla. Kristján Alexander Friðriksson og Bergur Líndal Guðnason verða leynigestir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir