Norðurlandamót stúlkna í skák verður í Borgarnesi um helgina

Norðurlandamót stúlkna í skák fer fram á Hótel Borgarnesi helgina 27.-29. apríl. Taflmennskan hefst kl. 20 á föstudagskvöldið en á laugardag og sunnudag eru tefldar tvær umferðir. Sú fyrri hefst kl. 10 og sú síðari kl. 16. Verðlaunaafhending verður síðan á sunnudagskvöld. Alls taka 33 stúlkur þátt í mótinu á aldrinum 10-20 ára. Níu þeirra eru íslenskar og sjö þeirra tefla í yngsta flokknum (13 ára og yngri). Margar þeirra eru því að tefla á sínum fyrsta alþjóðlega skákviðburði. Fyrsta Norðurlandamót stúlkna var haldið árið 2008 og er þetta í þriðja skiptið sem mótið fer fram hér á landi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrrum forseti SÍ og þingmaður, átti frumkvæðið að koma mótinu á legg á sínum tíma.

Fulltrúar Íslands eru sem hér segir: Í A flokki undir 20 ára keppir Verónika Steinunn Magnúsdóttir. Í B flokki undir 16 ára keppir Nansý Davíðsdóttir sem er margfaldur Norðurlandameistari stúlkna. Loks keppa í C flokki stúlkna yngri en 13 ára: Freyja Birkisdóttir, Batel Goitom Haile, Iðunn Helgadóttir, Guðrún Fanney Briem, Ylfa Ýr Welding Hákonardóttir, Soffía Berndsen og Anna Katarina Thoroddsen.

Líkar þetta

Fleiri fréttir