„Niður með strompinn“ segja 94 prósent

Eins og greint var frá í Skessuhorni vikunnar var opnað fyrir kosningu um framtíð Sementsstrompsins á Akranesi 18. apríl síðastliðin. Um var að ræða ráðgefandi skoðanakönnun sem lauk á miðnætti síðasta þriðjudags, 24. apríl. Íbúar bæjarins gátu kosið um málið  í íbúagáttinni á vef Akraneskaupstaðar.

Alls tjáðu 1095 íbúar á Akranesi hug sinn í könnuninni og var niðurstaðan afgerandi; 94,25% þeirra sem tóku þátt vilja að strompurinn verði felldur, eða 1032 íbúar. Aftur á móti vilja 5,75% að strompurinn standi áfram, eða 63 íbúar. Niðurstöður þessar voru kynntar bæjarráði á fundi þess í dag. Lagði ráðið til að niðurstöðurnar yrðu hafðar til hliðsjónar við frekari skipulagningu á þeirri uppbyggingu sem fyrirhuguð er á Sementsreitnum.

Á vef Akraneskaupstaðar er haft eftir Sævari Frey Þráinssyni bæjarstjóra að stjórnendur bæjarins séu ánægðir með þátttöku íbúa í kosningunni og niðurstöðu hennar. „Ljóst er að íbúar vilja verja fjármunum bæjarins í aðra hluti en viðhald á sementsstrompi og fögnum við þessu aukna lýðræði í stórum verkefnum sem bærinn er með, þetta verður aðeins byrjunin að því,“ segir Sævar. Hann bætir því við að haldið verði í þátt Sementsverksmiðjunnar í atvinnusögu bæjarins og að útbúinn verði minnisvarði um hana. „Næstu skref hjá okkur eru að klára skipulag svæðisins til undirbúnings niðurrifs sementsstrompsins,“ segir bæjarstjórinn.

Líkar þetta

Fleiri fréttir