Kári Jónasson er nýr formaður stjórnar RÚV

Ný stjórn tók við á aðalfundi RÚV ohf. mánudaginn 23. apríl. Stjórn RÚV fer með æðsta vald í málefnum þess milli aðalfunda, ber ábyrgð á rekstri félagsins og að farið sé að lögum þess. Nýr formaður stjórnarinnar er Kári Jónasson, fyrrverandi fréttastjóri Ríkisútvarpsins og ritstjóri Fréttablaðsins. Kári hóf störf hjá tímaritum Sambands íslenskra samvinnufélaga árið 1962 og var blaðamaður og ljósmyndari á Tímanum 1963-1973. Hann hóf störf á fréttastofu Útvarpsins árið 1973, var varafréttastjóri frá 1980 og fréttastjóri frá árinu 1987. Kári var síðan ritstjóri Fréttablaðsins á árunum 2004-2007. Hann hefur m.a. starfað sem leiðsögumaður síðustu ár.

„Ég tel mjög mikilvægt fyrir okkur að eiga sterkt og gott Ríkisútvarp, líkt og er í mörgum öðrum löndum sem við miðum okkur við. Það þarf að fylgja straumi tímans og þjóna bæði ungum og öldnum. Ríkisútvarpið er ekki húsið í Efstaleiti heldur fólkið sem þar vinnur, og að því þurfum við hlúa sem best. Jafnframt sterku Ríkisútvarpi þurfum við á traustum og góðum einkamiðlum að halda, öflugum dagblöðum, auk útvarps- og sjónvarpsstöðva af öllum stærðum og gerðum, vefmiðlum, að ógleymdum landsbyggðarmiðlum, bæði ljósvaka-, prent- og vefmiðlum,“ segir Kári Jónasson nýkjörinn formaður stjórnar Ríkisútvarpsins.

Aðrir stjórnarmenn í RUV eru:  Ragnheiður Ríkharðsdóttir varaformaður, Mörður Árnason, Jón Ólafsson, Guðlaugur Sverrisson, Brynjólfur Stefánsson, Lára Hanna Einarsdóttir, Elísabet Indra Ragnarsdóttir og Birna Þórarinsdóttir. Varamenn eru: Jón Jónsson, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, Erlingur Sigurðarson, Sigríður Valdís Bergvinsdóttir, Sjöfn Þórðardóttir, Mörður Ingólfsson, Marta Guðrún Jóhannesdóttir, Björn Gunnar Ólafsson og Jóhanna Hreiðarsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir