Íbúar mótfallnir fyrirhugaðri landfyllingu í Krókalón

Skipulags- og umhverfissvið Akraneskaupstaður hefur auglýst almennan íbúafund um skipulagsmál miðvikudaginn 2. maí klukkan 18 í bæjarþingsalnum á Stillholti 16-18. Á fundinum verða kynntar tillögur um breytingu aðalskipulags vegna tveggja aðskildra framkvæmda í sjó fram. Annars vegar verður kynnt fyrirhuguð lenging hafnargarðs og brimvarnargarðs í Akraneshöfn. Hins vegar verður kynnt fyrirhuguð breyting á hafnarsvæðinu við Grenjar, en þar sækir Skaginn 3X um að gera allt að 1,3 hektara landfyllingu til norðausturs út í Krókalón. Lóðin Bakkatún 30 yrði þá stækkuð svo mögulegt verði að heimila stækkun á iðnaðarhúsnæði um allt að 4000 fermetra. Síðarnefnda skipulagsbreytingin er afar umdeild hjá nágrönnum við Krókalón og Vesturgötu.

Bæjarstjórn Akraneskaupstaðar samþykkti á fundi sínum 27. febrúar síðastliðinn að auglýsa breytingu á aðalskipulagi og rann frestur til athugasemda út 21. mars. Fjölmargar athugasemdir bárust við fyrirhugaða landfyllingu, einkum frá íbúum í nágrenninu sem telja verulega á rétt sinn gengið. Meðal annars hefur verið farið fram á að áður en ákvörðun verði tekin verði lagt hagfræðilegt mat á skerðingu verðmæta fasteigna við göturnar Krókatún og Vesturgötu vegna aukinnar starfsemi á Grenjum og skerðingu á útsýni sem verði stöðugt verðmætara. Anna Lára Steindal sem býr við Krókatún 16 er meðal þeirra sem berst í ræðu og riti hart gegn fyrirhuguðum breytingum í nágrenni sínu. Hún segir að útlits- og sjónmengun skipti ekki öllu máli, heldur snúist mótmæli hennar um spurninguna hvernig bæ fólki vilja búa í. „Mig langar svo innilega og hjartanlega til þess að búa í samfélagi þar sem lífsgæði íbúa og velmegun þeirra, náttúru og samfélags er ekki metin, hvað þá fórnað, út frá fjárhagslegum hagsmunum þeirra sem eiga eitthvað undir sér og fá því að taka sér vald til þess að hundsa lífsgæði og náttúru eftir behag eins og þessi verðmæti væru einskis nýtt drasl,“ skrifar Anna Lára á Facebook síðu sína.

Líkar þetta

Fleiri fréttir