Hjúkrunarheimilið Fellsendi fagnaði 50 ára afmæli

Sumardagurinn fyrsti var haldinn hátíðlega á Hjúkrunarheimilinu Fellsenda í Dölum í tilefni þess að 50 ár voru liðin frá því heimilið var formlega vígt. „Við höfum haldið fjölskyldu- og vinadag fyrir íbúa á vorin síðastliðin þrjú ár og hefur það lukkast vel. Dagurinn er þá haldinn hátíðlegur og íbúar ásamt aðstandendum fá sér kaffi og kökur saman. Okkur fannst því tilvalið að halda upp á afmælið og fjölskyldu- og vinadaginn saman þetta árið. Í þetta skiptið vorum við með opið fyrir alla,“ segir Stefanía Björg Jónsdóttir, starfsmaður Fellsenda í samtali við Skessuhorn. Ólafur K. Ólafsson, sýslumaður og formaður minningasjóðs Fellsenda, hélt stutt ávarp um sögu Fellsenda og starfsemina sem þar hefur verið. Þá var starfsfólk heiðrað með rausnarlegri gjöf og þeir sem náð höfðu lengstum starfsaldri, sem er talinn í tugum, fengu sérstakar gjafir af því tilefni. „Erna Kristín Hjaltadóttir var meðal þeirra sem heiðraðir voru fyrir langan starfsaldur, en hún hefur starfað á hjúkrunarheimilinu Fellsenda í 45 ár og gerir enn,“ segir Stefanía.

Formaður Kvenfélagsins Fjólu, Erna Kristín Hjaltadóttir, færði Hjúkrunarheimilinu hjálpartæki, Sara Stedy, sem auðveldar starfsfólki umönnun á mismunandi þörfum íbúanna. Gestum var boðið upp á kaffi og kökur sem Kvenfélagið Fjóla lagði fram af lystisemi. „Í eldri byggingu Fellsenda, sem byggð var árið 1968, var gestum boðið að skoða listasýningu íbúanna er bar nafnið „Látum verkin tala.“ Bjögga Björns iðjuþjálfi hafði tekið saman ýmis listaverk sem íbúarnir höfðu búið til á síðastliðnum árum. Á sýningunni var meðal annars hægt að sjá málverk, Lego Technic hluti, glermuni, útsaum og skartgripi. Íbúarnir voru mjög þakklátir og ánægðir í lok dagsins með hversu margir mættu þeim til heiðurs. Dagurinn var í alla staði mjög vel heppnaður og við þökkum öllum kærlega fyrir komuna,“ segir Stefanía að endingu.

Sjá jafnframt í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Mottumars er hafinn

Átaki Krabbameinsfélagsins, Mottumars, var formlega hrundið af stað síðastliðinn föstudag. Átakið snýst um, eins og landsmenn þekkja, krabbamein í körlum.... Lesa meira