Tölvugerð mynd af vinnsludekkinu sem verður í nýja frystitogaranum.

Skaginn 3X framleiðir vinnsludekk í nýjan frystitogara HB Granda

Skaginn 3X mun bera ábyrgð á framleiðslu á vinnsludekki í nýtt frystiskip HB Granda sem nú er í smíðum í spænsku skipasmíðastöðinni Astrilleros Armon Gijon AS. Skaginn 3X mun annast afhendingu á vinnsludekkinu í heild sinni en hluti búnaðarins mun koma frá undirverktökum Skaginn 3X, svo sem Vélfagi, Marel og Afak. Þetta er fjórði samningurinn milli fyrirtækjanna hvað varðar heildarlausn um borð í ný skip HB Granda. Systurskipin Engey, Akurey og Viðey hafa hlotið verðskuldaða athygli hvað varðar hugvit, sjálfvirkni og afurðagæði. Í nýja frystitogaranum verður að sögn mikill sveigjanleiki hvað varðar vinnslu á mismunandi tegundum, fjölbreyttum vinnsluaðferðum og pökkunarmöguleikum.

„Vatnsskurður mun gera það að verkum að unnt verður að framleiða afurðir sem almennt þekkjast ekki um borð í frystiskipum. Það er mjög mikilvægt að hönnun á vinnslubúnaði, þ.m.t. pökkun, frysting og brettun styðji við nýjar og auknar kröfur markaðarins“ segir Jón Birgir Gunnarsson, markaðs- og sölustjóri hjá Skaganum 3X.

Líkar þetta

Fleiri fréttir