Hressir krakkar úr leikskólanum Garðaseli á Akranesi voru að tína rusl í morgun. Með á myndinni er Áki Jónsson sem var á ferð með hund sinn og voru þeir að heilsa upp á börnin þegar ljósmyndari átti leið hjá.

Plokkað á Degi umhverfisins

Dagur umhverfisins er í dag, 25. apríl. Það var að frumkvæði ríkisstjórnar Íslands árið 1999 að fyrst var ákveðið að tileinka umhverfinu einn dag á ári. Dagur umhverfisins er hvatning til skólafólks og almennings að kynna sér betur samskipti manns og náttúru, en dagurinn er ekki síður hugsaður sem tækifæri fyrir stjórnvöld, félagasamtök og fjölmiðla að efla opinbera umræðu um umhverfismál. Alþjóðlegur dagur umhverfisins, samkvæmt yfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, er 5. júní, en íslensk stjórnvöld töldu þá dagsetningu ekki henta íslenskum aðstæðum, þar sem mikilvægt þótti að hvetja skólafólk til að vinna að verkefnum tengdum umhverfismálum. Þá eru jú grunnskólar hérlendis komnir í sumarfrí.

Dagur umhverfisins var ákveðinn 25. apríl en þessi dagur var fæðingardagur náttúrufræðingsins Sveins Pálssonar (1762-1840) síðar landlæknis. Sveinn lauk fyrstur manna náttúrufræðiprófi frá Kaupmannahafnarháskóla og var hugsanlega fyrstur manna í Evrópu til þess að ljúka slíku prófi. Hann var merkur fræðimaður á sinni tíð og gerði til dæmis uppgötvanir á hreyfingu skriðjökla og var langt á undan sinni samtíð í umhverfismálum. Sveinn varð líklega fyrstur til að vekja máls á sjálfbærri þróun, þótt það hugtak væri þá óþekkt. Hann vakti meðal annars athygli á eyðingu skóga, sem hann sagði verða „hinum liðnu til ævarandi skammar en niðjunum til skaða.“

Víða var hefðbundnu skólastarfi breytt í dag og nemendur og starfsfólk skólanna fóru út og tíndu rusl kyrru og fallegu veðri. Skessuhorn hvetur lesendur víðsvegar um Vesturland að senda skemmtilegar myndir af hreinsunarstarfinu í dag og næstu daga. Óskast þær sendar á netfangið: skessuhorn@skessuhorn.is

 

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir