Verðlaunahafar á Degi umhverfisins, sem varðliðar umhverfisins, ásamt Guðmundi Ingi Guðbrandssyni umhverfisráðherra.

Nemendur 9. bekkjar Grundaskóla meðal varðliða umhverfisins

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra veitti Eldingu Hvalaskoðun í Reykjavík í dag Kuðunginn, umhverfisviðurkenningu umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, fyrir framúrskarandi starf að umhverfismálum á síðasta ári. Við sama tækifæri voru nemendur í Brúarskóla í Reykjavík og Grundaskóla á Akranesi útnefndir Varðliðar umhverfisins. Loks voru fimm stúlkur í 10. bekk Hagaskóla í Reykjavík jafnframt útnefndar Varðliðar umhverfisins fyrir verkefnið Pokastöðin Vesturbær.

Verkefni nemenda 9. bekkjar nemenda í Grundaskóla á Akranesi var með yfirskriftina „Hafðu áhrif“ og hafði það markmiði að hafa áhrif á samfélagið og vekja aðra til umhugsunar um umhverfismál. Í umsögn um verkefni þeirra segir: „Nemendurnir endurnýttu gamalt efni og saumuðu innkaupapoka og grænmetispoka sem seldir voru á árlegum Malavímarkaði skólans, unnu kynningarmyndband um mikilvægi þess að minnka plastnotkun, gróðursettu plöntur og tíndu rusl í skógræktinni og sendu bæjarstjóranum á Akranesi áskorun um að koma þar upp flokkunaraðstöðu. Þeir voru einnig með fræðslu fyrir nemendur og kennara í skólanum um bætta sorpflokkun og umhverfismál almennt. Að auki hönnuðu nemendur fernur fyrir vatn í stað hefðbundinna plastflaskna og skrifuðu greinar um umhverfismál sem birtar voru á Facebook-síðu árganganna. Var það mat valnefndar að nemendur í 9. bekk í Grundaskóla hafi með verkefnum sínum fjallað um umhverfismál í víðum skilningi og leitast við að hafa jákvæð áhrif á samfélag sitt með því að hvetja til umhverfisvænni lifnaðarhátta á fjölbreyttan hátt. „Ekki sé annað að sjá en að þeim hafi tekist ljómandi vel í þeirri viðleitni sinni að „Hafa áhrif“, eins og lagt var upp með í byrjun,“,“ segir í umsögn vegna verðlaunanna.

Líkar þetta

Fleiri fréttir