Kútter Sigurfari skrásettur með myndmælingu

Nýverið fór fram vinna við skrásetningu á kútter Sigurfara á Safnasvæðinu í Görðum á Akranesi. Norðmaðurinn Gunnar Holmstad myndaði skipið í bak og fyrir í fjóra daga. Ljósmyndirnar notar hann til að útbúa þrívíddarlíkan af skipinu. Byggðasafnið í Görðum fær síðan öll gögnin afhent til notkunar á safninu. Skessuhorn hitti Gunnar að máli meðan vinna þessi fór fram og ræddi við hann um verkefnið og aðferðina, sem nefnist photogrammetry á erlendum málum, en myndmæling upp á íslenska tungu. „Markmið verkefnisins er að skjalfesta og skrásetja Sigurfara með því að skrá rúmfræði bátsins í því ástandi sem hann er núna. Til þess notum við myndmælinu, þ.e. að taka myndir sem síðan er raðað saman eftir sameiginlegum einkennum hverrar og einnar myndar til að útbúa þrívíða mynd,“ segir Gunnar í samtali við Skessuhorn. „Myndmæling virkar í raun alveg eins og augun okkar. Við höfum tvær linsur, augun, sem skynja hluti frá örlítið mismunandi sjónarhorni. Heilinn raðar þeim síðan saman í eina mynd. Þess vegna erum við fær um að skynja dýpt. Myndmæling virkar á sama hátt, nema bara eins og við hefðum dálítið mikið fleiri augu. Ef við hefðum nógu mörg augu gætum við séð fyrir horn eða jafnvel í kringum hluti,“ útskýrir hann og brosir.

 

Miðlaði þekkingu sinni

Gunnar segir mikilvægt að vinna skipulega, taka myndirnar eftir fyrirfram ákveðinni röð til að hugbúnaðurinn eigi auðveldara með að raða þeim saman. „Þetta er mikil vinna og nokkuð tímafrek, því hver mynd þarf að vera að minnsta kosti 60% af sama ramma og myndin á undan. Það er svo hugbúnaðurinn eigi auðveldara með að finna sameiginleg einkenni til að raða myndunum saman,“ segir hann. Þá skiptir birtan máli og Gunnar kveðst hafa verið heppinn með veður hvað það snertir í síðustu viku. „Gráu skýin eru mjög góð þegar myndað er utandyra því þá fær maður mjög jafna birtu. Í sólskini verður mjög sterkt kontrast og ef rignir er mjög erfitt að gera myndmælingu, því regnið gerir það að verkum að birtan er aldrei nákvæmlega eins á tveimur myndum,“ segir hann.

Heimsókn Gunnars til Íslands var jafnframt nýtt til að slá upp námskeiði í mymdmælingu og vinnustofu. Þrír Norðmenn, einn Færeyingur og þrír Íslendingar skráðu sig á námskeiðið. Var engu líkara en hluta safnaskálans hefði verið breytt í ljósmyndastúdíó. Þar mynduðu nemendur Gunnars hnífa, bækur, brúður og ýmsa muni og útbjuggu þrívíddarlíkan af þeim í tölvu.

 

Vinnan lofar góðu

Spurður hvernig til tókst við myndmælingu kúttersins kveðst Gunnar ekki vilja slá neinu föstu um lokaútkomuna en segir vinnuna þó gefa tilefni til bjartsýni. „Ég er ekki með ofurtölvuna mína, sem þarf til að fullvinna ferlið. En ég er búinn að forvinna líkanið í fartölvunni minni og þetta lofar góðu,“ segir hann og sýnir blaðamanni hvernig módelið leit út þegar búið var að vinna nokkurn hluta þess. „Þrátt fyrir að upplausnin sé tiltölulega lág sjáum við hvar plankarnir mætast á ytra byrði bátsins og ýmis önnur einkenni á viðnum, sprungur og ýmislegt í þeim dúr. Þetta verður enn skýrara þegar ég kemst í ofurtölvu. Ég held þetta muni koma vel út og gefa góða mynd af Sigurfara eins og hann er núna,“ segir Gunnar meðan hann fer umhverfis kútter Sigurfara á líkaninu í tölvunni, færir sjónarhornið upp á þilfar og fer þaðan undir þiljar og ofan í lestina. Hann myndaði kútterinn nefnilega að innan sem utan, hvern krók og kima. Næst varpar hann upp líkani sem hýst er á netinu af báti sem hann myndaði áður í Noregi. Gefur það líkan mjög ítarlega og raunverulega mynd af bátnum. Gunnar segir að þannig ætti kútter Sigurfari að birtast þeim sem skoða líkanið af honum í framtíðinni. Með því að ljá þeim sem skoðar stjórntæki getur viðkomandi meira að segja skoðað hverja spýtu. „Ef einhver vill þá er hægt að nota svona líkön til að þrívíddarprenta eða smíða mjög nákvæmt módel af bátnum, nú eða endursmíða bátinn,“ segir Gunnar Holmstad að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir