Hér má sjá mynd af grunninum sem er verið að taka undir skemmuna. Ljósm. Óskar Björnsson.

Byggja skemmu fyrir tækjakost jöklafyrirtækis

Ferðaþjónustufyrirtækið Into the Glacier, eignarhaldsfélag um ísgöngin í Langjökli, hóf í byrjun mánaðarins framkvæmdir við byggingu nýrrar vélaskemmu við afleggjarann upp Kaldadalsveg ofan við Húsafell. Verið er að taka grunn fyrir 300 fermetra skemmu og eru framkvæmdir við sjálfa bygginguna að hefjast á næstu vikum. „Ætlunin er að skemman verði komin upp fyrir sumarið eða í byrjun sumars,“ segir Sigurður Skarphéðinsson framkvæmdarstjóri Into the Glacier í samtali við Skessuhorn. Skemman verður notuð bæði sem geymsla fyrir tæki og tól en einnig til að sinna viðhaldi á búnaði fyrirtækisins. „Það er fyrir löngu orðið tímabært fyrir okkur að fá þessa aðstöðu. Við höfum fram til þessa verið aðstöðulaus með öllu, bæði hvað varðar geymslu og viðhald,“ segir Sigurður og heldur áfram: „Við biðum í 15 mánuði eftir aðalskipulagsbreytingu og deiliskipulagsbreytingu svo við gætum fengið samþykki. Ég veit að það er í raun ekkert óeðlilega langur tími og við höfum bara beðið þolinmóð og nú er loksins hægt að hefjast handa.“

„Skemman er aðeins fyrsti fasi í þeirri uppbyggingu sem við erum að leggja í á þessu svæði. Við höfum hug á að byggja þarna enn frekari aðstöðu til framtíðar,“ segir Sigurður. Í byrjun sumar verður trukkum fyrirtækisins einnig fjölgað en í dag eru þeir fimm talsins, allir átta hjóla. „Við eigum von á einum átta hjóla trukki og einum sex hjóla sem við erum að hanna í samvinnu við framleiðandann úti. Þeir koma til okkar í byrjun sumars,“ segir Sigurður. Aðspurður hvort starfsfólki fyrirtækisins fari einnig fjölgandi svarar Sigurður því játandi. „Við erum með um 50 starfsmenn í vinnu núna en þeim fer fjölgandi, sérstaklega starfsfólki í viðhaldshópi okkar sem sér um viðhald bæði á göngum og búnaði. Þá er einnig fyrirhugað að ráða til okkar bifvélavirkja þegar verkstæðið í skemmunni verður tekið í notkun. Það er alltaf nóg að gera hjá okkur og fyrirtækið stöðugt að stækka,“ segir Sigurður að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir