Slökkvilið að störfum síðdegis í dag. Ljósm. Heiður Dögg Reynisdóttir.

Kviknaði í feiti í potti

Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var laust eftir klukkan 16 í dag kallað út að þríbýlishúsi við Jaðarsbraut á Akranesi. Í ljós kom að gleymst hafði að slökkva undir feiti á eldarvélarhellu og var eldur laus. Húsráðandi sem var einn í íbúðinni komst af sjálfsdáðum út úr íbúðinni sem og aðrir íbúar í húsinu. Að sögn Þráins Ólafssonar slökkviliðsstjóra gekk slökkvistarf greiðlega og var eldur staðbundinn við pott og feiti sem í honum var. Nægði að beita duftslökkvitæki til að kæfa eldinn. Engu að síður urðu að sögn Þráins talsverðar skemmdir á íbúðinni af völdum reyks og hita. Litlu mátti muna að eldurinn brytist út því hitinn var orðinn talsverður í íbúðinni þegar slökkvilið kom á staðinn. Plasthlutir í íbúðinni á borð við ljós, reykskynjari og elhússviftan voru teknir að bráðna af völdum hitans. Maðurinn sem var í íbúðinni var sendur til læknisskoðunar á HVE á Akranesi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir