Útskriftarhópurinn með ýmsar viðurkenningar. Lengst til hægri er Heiða Dís Fjeldsted reiðkennari.

Borgfirðingar sigursælir á Skeifudeginum

Landbúnaðarháskóli Íslands og hestamannfélagið Grani á Hvanneyri stóðu í gær, á sumardaginn fyrsta, fyrir árlegum Skeifudegi. Dagur þessi er samkvæmt áratuga hefð uppskeruhátíð nemenda í reiðmennskuáföngum við skólann. Boðið var upp á keppni og glæsilegar sýningar. Síðdegis var svo boðið til kaffiveislu á Hvanneyri, útskrift nemenda fór fram auk þess sem verðlaun voru afhent. Þá var dregið í happrætti þar sem í verðlaun voru folatollar undir ýmsa af fremstu stóðhestum landsins. Linda Margrét Gunnarsdóttir formaður Grana stýrði samkomunni.

Dagskráin hófst á Mið-Fossum eftir hádegið þar sem Guðni Th Jóhannesson forseti Íslands var í upphafi samkomunnar boðinn velkominn í salinn. Hann mætti ásamt frú Elízu Reid og tveimur yngstu börnum þeirra í óopinbera heimsókn og setti heimsókn þeirra vissulega hátíðarbrag á samkomuna. Sæmundur Sveinsson rektor LbhÍ bauð gesti velkomna og setti hátíðina formlega. Að því búnu var fánareið þar sem Heiða Dís Fjeldsted reiðkennari fór fyrir hópi nemenda við skólann. Þá var sýning Töltgrúbbu Vesturlands, en það er stór hópur kvenna víðsvegar af Vesturlandi sem æfir og kemur nú fram. Atriði þeirra var glæsilegt og vel æft. Verður gaman að fylgjast með þeim hópi í framtíðinni. Að því búnu var kynning nemenda í reiðmennsku og úrslit fóru fram í keppninni um Reynisbikarinn og Gunnarsbikarnum.

 

Fjöldi viðurkenninga

Gunnarsbikarinn fyrir keppni í fjórgangi hlaut Heiðar Árni Baldursson frá Múlakoti. Bikarinn er gefinn til minningar um Gunnar Bjarnason, fyrrum hrossaræktarráðunaut og kennara á Hvanneyri. Heiðar Árni vann auk þess reiðmennskuverðlaun Félags tamningamanna og varð þriðji efstur í útskriftarhópnum. Daníel Atli Stefánsson fékk framfarabikar Reynis fyrir góða ástundum og framfarir í námi í vetur en bikarinn er gefinn til minningar um Reyni Aðalsteinsson reiðkennara frá Sigmundarstöðum. Nemendur úr námskeiðsröðinni Reiðmanninum III, sem er gangtegunda- og fimikeppni, kepptu auk þess um Reynisbikarinn á Mið-Fossum og var það Sigurður Halldórsson sem hlaut hann. Rebekka Rún Helgadóttir hlaut Eiðfaxabikarinn fyrir bestu einkunn í bóklegum áfanga hestafræðinnar á Hvanneyri. Loks hlaut Gunnhildur Birna Björnsdóttir Morgunblaðsskeifuna, verðlaun sem að þessu sinni voru afhent í 61. skipti en viðurkenninguna fær sá nemenda sem hlýtur hæsta meðaleinkunn úr verklegum reiðmennskuprófum. Gunnhildur Birna er frá Ásbrú 6 í Bæjarsveit. Hún hefur lært hestanudd en hefur starfað við hestamennsku meðal annars hjá Ólöfu Guðbrandsdóttur í Nýja-Bæ og á hestabúinu á Skáney í Reykholtsdal.

Líkar þetta

Fleiri fréttir