Til að vinna verkið var notað sérsmíðað síló sem skrúfað var fast á borholuna. Fyrst var köldu vatni dælt niður, þá hellt möl og að endingu sementi til að búa til varanlegan tappa. Sílóið smíðaði Snorri Kristleifsson á Sturlu-Reykjum. Ljósm. Skessuhorn/mm

Gömlu borholunni í Reykholti lokað

Síðastliðinn föstudag unnu starfsmenn Ræktunarsambands Flóa og Skeiða við að loka gamalli borholu í Reykholti í Borgarfirði. Hola þessi var boruð 1974 og var vatn úr henni þar til fyrir skömmu notað til upphitunar húsa á staðnum, eða allt þar til á síðasta ári að boruð var önnur hola með góðum árangri og vatn úr henni virkjað í fyrrahaust. „Nýja borholan skilaði okkur góðu vatni en mjög heitu. Hún er 306 metra djúp, en vatnsæðin í henni er á 247 metra dýpi og hitinn á botni hennar 127 gráður, en inni í dæluskúr er það 122 gráður. Við hins vegar dælum ekki svo heitu vatni upp í húsin, heldur erum með lokað hitaveitukerfi. Nýtum bakstreymisvatnið sem kemur frá húsunum um 30-40 gráðu heitt, blöndum því við heita vatnið og dælum svo um 70 gráðu heitu vatni upp í húsin að nýju,“ segir séra Geir Waage sóknarprestur í Reykholti. Það er Reykholtsstaður ehf. sem stendur fyrir þessari framkvæmd og rekur hitaveituna á staðnum og auk þess er vatni dælt þaðan til nokkurra nærliggjandi bæja í dalnum.

Gamla borholan í Reykholti var gölluð að því leyti að þegar hún var boruð á sinni tíð var ekki sett fóðring niður á fasta klöpp. Fóðrað var niður í 18 metra en klöppin er hins vegar á 25 metra dýpi. Af þeim sökum hefur heitt vatn náð að þrýstast út í setlögin um lausa fóðringu á þeim átta metrum sem munaði og hafa heitir hverir og uppsprettur verið að koma upp víða í landinu í kring, meðal annars í Snorragarðinum með tilheyrandi slysahættu. Að sögn Geirs var Snorragarðurinn orðinn svo heitur að þar festi ekki snjó í vetur. Mikill vatnsagi og hiti hefur reyndar verið til vandræða í Snorragarðinum allt frá upphafi skólahalds við héraðsskólann.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir