Strompurinn og Sementsverksmiðjusvæði, séð skammt frá mótum Suðurgötu og Mánabrautar í morgun.

Akurnesingar tjá sig um framtíð strompsins

Sem kunnugt er stendur niðurrif Sementsverksmiðjunnar á Akranesi sem hæst um þessar mundir. Byggingar og búnaður þessarar stóru verksmiðju hafa horfið eitt af öðru undanfarna mánuði. Síðast var ofnhúsið rifið og nú er verið að rífa efnisgeymsluna. Yfir niðurrifssvæðinu trónir sementsstrompurinn, eitt helsta kennileiti Akraness í sex áratugi. Frá því ákveðið var að rífa Sementsverksmiðjuna hefur umræðan um framtíð hans reglulega skotið upp kollinum. Á hann að vera eða víkja? Bæjarráð Akraness ákvað fyrr í mánuðinum að gerð skyldi ráðgefandi skoðanakönnun um framtíð skorsteinsins. Opnað var fyrir könnunina í íbúagáttinni á heimasíðu Akraneskaupstaðar á miðvikudag. Þar geta íbúar sagt til um hvort þeir vilji að strompurinn standi áfram eða verði rifinn.

Eins áður hefur komið fram í Skessuhorni hefur verkfræðistofan Mannvit áætlað að uppgerð og viðhald strompsins muni kosta 28 milljónir í upphafi við lokun, hreinsun, viðgerð og málun. Síðan er áætlaður kostnaður vegna reglulegs viðhalds, á um það bil sex ára fresti, um ellefu milljónir króna. Þá er ótalinn kostnaður vegna umhverfis og frágangs þess. Ekki er gert ráð fyrir neinum tæknibúnaði eða upphitun mannvirkisins í þessu kostnaðarmati.

Gróflega áætlað kostnaðarmat vegna niðurrifs strompsins er 21 milljón króna. Jafnframt yrði gert ráð fyrir um þremur milljónum króna í gerð minnisvarða um svæðið, að því er fram kemur á vef Akraneskaupstaðar. Yrði hugsanlega efnt til hugmyndasamkeppni og starfshópur um þá samkeppni settur á laggirnar. Slíkt yrði skoðað þegar endanleg ákvörðun um framtíð strompsins liggur fyrir.

Akurnesingar geta kosið um framtíð strompsins til og með þriðjudeginum 24. apríl næstkomandi. Þá verða niðurstöðurnar teknar saman og lagðar fyrir á fundi bæjarráðs tveimur dögum síðar, 26. apríl. Sem fyrr segir er aðeins um ráðgefandi könnun að ræða. Endanleg ákvörðun um framtíð svæðisins og þar með skorsteinsins verður tekin í bæjarstjórn að undangengnu skipulagsferli.

Líkar þetta

Fleiri fréttir