Vikuna eftir umhverfisslysið var veiðistaður fjögur þannig útlítandi, en fram að því hafði þetta verið fengsælasti veiðistaður árinnar. Allt var fullt af aur og hægt að ganga þurrum fótum eftir miðri ánni.

Engin laxveiði verður í Andakílsá í sumar

Stjórn Veiðifélags Andakílsár í Borgarfirði hefur ákveðið að engin laxveiði verði í ánni í sumar. Þetta var ákveðið að höfðu samráði við fiskifræðing og með tilliti til aðstæðna í ánni. „Við höfum ákveðið að láta náttúruna njóta vafans. Við vitum ekki hvernig seiðum sem nú eru í sjó mun reiða af og teljum skynsamlegast í ljósi stöðunnar að heimila enga laxveiði í sumar,“ segir Ragnhildur Helga Jónsdóttir í Ausu og stjórnarmaður í veiðifélaginu í samtali við Skessuhorn. Eins og margir vita varð umhverfisslys í ánni í fyrravor þegar þúsundum rúmmetra af aur var hleypt niður í ána úr inntakslóni ofan við Andakílsárvirkjun. Allir veiðistaðir ofantil í ánni fylltust af leir og árbotninn allur og bakkar hans allt út í Borgarfjörð voru þaktir af lífvana leirnum. Nokkur ár mun taka að meta tjón sem þetta olli á lífríki árinnar, orðspor og sölu veiðileyfa til lengri tíma. Orka Náttúrunnar, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, á og rekur Andakílsárvirkjun. Fyrirtækið hefur viðurkennt ábyrgð sína í málinu.

Sjá nánar í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir