Steinunn Helgadóttir verður fyrsti formaður Vesturlandsdeildar FKA. Hún er eigandi Narfeyrarstofu í Stykkishólmi ásamt eiginmanni sínum, Sæþóri Þorbergssyni. Hér eru þau á veitingastaðnum ásamt börnum sínum Þorbergi Helga og Anítu Rún. Ljósm. aðsend.

Vesturlandsdeild Félags kvenna í atvinnulífinu stofnuð í kvöld

Vesturlandsdeild Félags kvenna í atvinnulífinu verður stofnuð í kvöld, miðvikudaginn 18. apríl, á stofnfundi í Narfeyrarstofu í Stykkishólmi. Vesturlandsdeildin verður þar með fjórða landshlutadeild FKA. Fyrir eru starfræktar deildir á Norðurlandi, Suðurlandi og Vestfjörðum og félagið telur ríflega 1.100 félagskonur úr öllum greinum atvinnulífsins.

Á stofnfundinum í Stykkishólmi mun Rakel Sveinsdóttir, formaður FKA, kynna starfsemi félagsins og helstu verkefni þess. Að beiðni formanns mun Steinunn Helgadóttir leiða starf Vesturlandsdeildarinnar fyrstu misserin. „Það er stefna félagsins að vera með deildir út um allt land og nú er komið að okkur. Um þetta hefur verið hugsað í langan tíma og núna er loksins komið að því að Vesturlandsdeild félagsins verði stofnuð,“ segir Steinunn í samtali við Skessuhorn.

Steinunn er lærður einkaþjálfari frá Keili. Helstu áhugamál hennar eru útivist og íþróttir og hefur hún margoft tekið þátt í fitnessmótum. Hún er eigandi veitingastaðarins Narfeyrarstofu í Stykkishólmi ásamt eiginmanni sínum, Sæþóri Þorbergssyni. Eru þau búsett í Hólminum og eiga tvö börn; Þorberg Helga og Anítu Rún. Þorbergur er matreiðslunemi á Narfeyrarstofu og Aníta stundar nám við Háskóla Íslands. „Ég og Sæþór tókum við rekstri Narfeyrarstofu árið 2001 og höfum rekið staðinn allar götur síðan, fyrir utan þrjú ár sem við tókum okkur í frí vegna veikinda Sæþórs. En alla okkar tíð höfum við rekið staðinn saman og skipt daglegum rekstri á milli okkar; ég sé um salinn og Sæþór um eldhúsið,“ segir hún.

 

Kjarninn að efla tengsl

Aðspurð kveðst hún ekki hafa rekist á veggi í sínum rekstri af því að hún er kona. „En það er ekki þar með sagt að maður vilji ekki hjálpa öðrum konum, því ég veit að margar konur í félaginu hafa aðra sögu að segja en ég. Kjarninn í starfi félagsins er enda að efla tengsl milli kvenna í atvinnurekstri og þannig skapa konum bakland og stuðning í hvorri annarri,“ segir Steinunn. „Réttindabarátta kvenna hefur alltaf verið hluti af mínu lífi. Ég hef svo sem ekki tekið virkan þátt í þeirri baráttu en alltaf fylgst náið með gangi mála. Nú hef ég tíma til að stíga aðeins til hliðar á öðrum vígstöðum og þá getur maður boðið fram krafta sína á þessum vettvangi,“ segir hún. „Þetta skiptir mig miklu máli og við verðum líka að hugsa um dætur okkar, næstu kynslóðir,“ bætir hún við. Af þeim sökum fór hún að kynna sér starfsemi FKA og segist hafa heillast strax af félaginu. „Þetta félag heillaði mig algerlega upp úr skónum. Innan vébanda þess starfa frábærar konur sem hafa mikinn áhuga á og styðja við bakið á hvorri annarri. Ég þurfti því ekki að hugsa mig tvisvar um þegar formaðurinn bað mig að annast stjórn félagsins,“ segir Steinunn. „Ég hef trú á því að stofnun deildarinnar muni styrkja konur í atvinnurekstri á Vesturlandi og efla tengslanetið til muna,“ bætir hún við.

 

Starf vetrarins undirbúið

Auk Steinunnar verður fyrsta stjórn Vesturlandsdeildar FKA skipuð þeim Gyðu Steinsdóttur, viðskiptafræðingi og verkefnastjóra hjá KPMG í Stykkishólmi, Önnu Melsteð, eiganda margmiðlunarfyrirtækisins Anok í Stykkishólmi, Björgu Ágústsdóttur, lögfræðingi og verkefnisstjóra Alta í Grundarfirði, Júníönu Björgu Óttarsdóttur, verslunarstjóra Blómsturvalla á Hellissandi og Söndru Margréti Sigurjónsdóttur á Akranesi, framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landhelgisgæslu Íslands. „Allar voru þær mjög jákvæðar fyrir starfinu þegar falast eftir kröftum þeirra í stjórn. Við byrjum á að kjósa stjórnina til eins árs, sjáum hvernig það gefst og endurmetum þá stöðuna eftir árið,“ segir Steinunn.

Aðspurð segir hún að fyrsti fundurinn eftir stofnun félagsins verði haldinn í maí og í framhaldi þess fari ný stjórn að undirbúa starf vetrarins. „Það mun einkum felast í heimsóknum til annarra kvenna í atvinnurekstri í landshlutanum, fá fyrirlesara á fundi og fara á námskeið. Við munum reyna að fara í eins margar heimsóknir og við mögulega getum og efla tengslin um allt Vesturland,“ segir hún.

Líkar þetta

Fleiri fréttir