Horft yfir framkvæmdasvæðið. Tækið sem notað er til að reka niður staurana er fyrir miðju í mynd, gult að lit.

Reka 115 staura niður á fast

Íbúar á Akranesi mega búast við högghávaða

Í dag var hafist handa við að reka niður staura vegna framkvæmda við Stillholt 21 á Akranesi. Þar byggir verktakafyrirtækið Þingvangur ehf. tíu hæða fjölbýlishús. Staurarnir verða reknir niður með höggorku og eru 115 talsins. Allir verða staurarnir reknir niður í klöpp til að tryggja að burður sökkla hússins verði fullnægjandi. Staurarnir eru milli 4,5 til 7,5 metra langir og verða ýmist reknir beint niður eða með halla.

Í tilkynningu til íbúa og fyrirtækja á vef Akraneskaupstaðar segir að búast megi við högghávaða vegna þessara framkvæmda. Höggin séu taktföst og geti verið allt að 90 á mínútu. Stefnt er að því að verkinu verði lokið á tveimur vikum.

Verkfræðistofan Mannvit er eftirlitsaðili vegna staurarekstursins. Verður viðhaft nákvæmt eftirlit með hreyfingu í jörðu umhverfis vinnustaðinn. Hefur titringsmælum verið komið fyrir á nálægum húsum svo fylgjast megi með titringi og tryggja að viðmiðunarmörkum um framkvæmdir sem þessar sé fullnægt.

Líkar þetta

Fleiri fréttir