Maður í mislitum sokkum er hin besta skemmtun

Leikfélagið Grímnir í Stykkishólmi frumsýndi á föstudagskvöld gamanleikinn Maður í mislitum sokkum, eftir Arnmund S. Backman. Sýnt er í sal Tónlistarskólans í Stykkishólmi.

Maður í mislitum sokkum fjallar um Steindóru og vini hennar. Steindóra er ósköp ljúf ekkja en þykir hálf taugaveikluð, tepruleg en góðleg kona sem hefur áhyggjur af almenningsálitinu. Eftir ferð í matvörubúðina dagar uppi hjá henni minnislaus maður sem ratar ekki heim.

Leikstjórn er í höndum Bjarka Hjörleifssonar og leikendur eru Jóhanna Hjaltalín, Almar Þór Jónsson, Jón G. Breiðfjörð Álfgeirsson, Björg Brimrún Sigurðardóttir, Baldvin Mattes, Salvör Mist Sigurðardóttir, Heiðrún Edda Pálsdóttir, Birta Sigþórsdóttir og Viktoría Huld Ragnarsdóttir.

Leikarahópurinn er ungur og tekst vel að koma efninu til skila. Jóhanna, sem leikur Steindóru og Almar Þór, sem leikur Guðjón, eru hryggjarstykkið í verkinu með góðum stuðningi annarra leikara. Jón Grétar, Björg og Salvör leika skemmtilegar týpur sem gera Mann í mislitum sokkum að hinni bestu skemmtun.

Leikunnendum er bent á að sjötta sýning verksins verður í kvöld, miðvikudaginn 18. apríl kl. 20:00. Næst verður sýnt á föstudag kl. 21:00, þá á laugardag kl. 20:30 og lokasýning verður sunudaginn 22. apríl kl. 16:00. Miðasala er hjá Hafrúnu Bylgju Guðmundsdóttur í síma 863-0078, eftir kl. 16:00 virka daga.

Líkar þetta

Fleiri fréttir