Listaverk sett á veggi fyrirtækja

Eins og glöggir vegfarendur hafa tekið eftir eru veggirnir á húsnæði Hraðfrystihúss Hellissands á Hellissandi að taka á sig breytta mynd þessa dagana. Listamennirnar sem þarna eru að verki koma allsstaðar að úr heiminum. Flestir erlendir, en þeir taka þátt í nýju verkefni Hellissandur; Street Art Capital of Iceland. Hugmyndina að þessu fékk Kári Viðarsson, leikari og athafnamaður fyrir nokkrum mánuðum og er það nú komið í framkvæmd. Von er á átta listamönnum í sumar og munu þeir verja allt frá einni og upp í sex vikur hver við að vinna að þessu verkefni. Flestir listamennirnar sóttu um að fá að taka þátt í verkefninu í gegnum alþjóðleg samtök sem heita ArtTrvl en það eru samtök listamanna sem sækjast eftir því að ferðast um heiminn og taka þátt í verkefnum sem þessum í leiðinni. Munu þeir mála myndir tengdar þjóðsögum af svæðinu og er vinna hafin við myndir úr sögu Axlar Björns og mun hún klárast á næstu dögum.

Sögurnar sem verkin á húsnæði hraðfrystihússins munu byggjast á eru Bárðar Saga Snæfellsbáss, sagan af Axlar Birni, Fróðárundrin, Ferðin að miðju jarðar eftir Jules Verne og sagan af því þegar geimverur áttu að lenda á Snæfellsjökli 5. nóvember 1993. Í framhaldi af þessu verða svo nokkrar fleiri byggingar á Hellissandi skreyttar af vegglistaverkum, meðal annars gamla slökkvistöðin við Naustabúð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir