Frá Laugum í Sælingsdal. Ljósm. úr safni.

Hætt við söluna á Laugum í Sælingsdal

Hætt hefur verið við sölu á eignum Dalabyggðar að Laugum í Sælingsdal. Sveitarstjórn Dalabyggðar samþykkti samhljóða á fundi sínum í gærkvöldi að slíta viðræðum við tilboðsgjafa, Arnarlón ehf., eftir að tilboðsgjafi óskaði þess að sveitarfélagið færði skuldabréf sín á þriðja veðrétt.

Eins og áður hefur verið greint frá stóðu yfir viðræður milli Dalabyggðar og Arnarlóns ehf. um kaup félagsins á húseignum Dalabyggðar og Dalagistingar ehf. að laugum, 50% hlut Dalabyggðar í jörðinni Laugum og jörðina Sælingsdalstungu. Tilboð Arnarlóns í eignirnar hljóðaði upp á 460 milljónir króna og barst sveitarfélaginu 18. desember sl. Samkvæmt tilboðinu var gert ráð fyrir því að hluti kaupverðsins, 50 milljónir króna, kæmi til greiðslu 31. desember 2019 á þriðja veðrétti og 150 milljónir til greiðslu 31. desember 2022 á öðrum veðrétti. Fasteignasala var tilkynnt 21. desember síðastliðinn að Dalabyggð myndi taka tilboðinu með þeim fyrirvara að ekki bærist hagstæðara tilboð fyrir 30. desember sem og að skuldabréf vegna seinni greiðslna yrðu tryggð með fyrsta eða öðrum veðrétti í öllum eignum. Hagstæðari tilboð bárust ekki og 16. janúar samþykkti sveitarstjórn að ganga til samninga við Arnarlón að nokkrum fyrirvörum uppfylltum. Síðan gerist það 5. apríl sl. að tilboðsgjafi féll frá fyrirvörum sínum en óskaði þess jafnframt að Dalabyggð færði skuldabréf sín á þriðja veðrétt. Því hafnaði sveitarstjórn alfarið og samþykkti að slíta viðræðum við Arnarlón. „Dalabyggð hefur ítrekað framlengt fresti tilboðsgjafa til að falla frá fyrirvörum um fjármögnun og rann fresturinn loks út 5. apríl sl. Sveitarstjórn setti það sem skilyrði fyrir að fresta greiðslum að skuldabréf vegna þessa væri tryggt með fyrsta eða öðrum veðrétti. Sveitarstjórn hafnar því að skuldabréf vegna greiðslna tilboðsgjafa verði neðar en á öðrum veðrétti og slítur viðræðum við tilboðsgjafa,“ segir í samþykkt sveitarstjórnar.

 

Vildu ekki taka áhættu

Sveinn Pálsson sveitarstjóri segir í samtali við Skessuhorn ekki hafa verið ágreining um upphæðir heldur fjármögnun tilboðsgjafa. „Staðan var sú að þessi ágæti tilboðsgjafi, sem við vildum svo gjarnan ná samningum við, nær ekki að fjármagna kaupin þannig að sveitarstjórn geti verið sátt við. Það er ekki ágreiningur um upphæðir en ágreiningur um hluta af fjármögnuninni, sem fólst í því að fresta tveimur greiðslum. Kalla má það seljendalán eða hvað sem menn vilja kalla slíkt,“ segir Sveinn í samtali við Skessuhorn. „Eðlilega vill sveitarstjórn hafa góðar tryggingar fyrir því að fá þá peninga, annars er tilgangur þessa gjörnings fallinn, því tilgangurinn var einmitt að afla fjár til framkvæmda í sveitarfélaginu. Við töldum því að ekki yrði lengra gengið að sinni og sveitarstjórn tók ákvörðun um að slíta viðræðum,“ bætir hann við.

 

Íþróttamannvirki á ís

Nýta átti peningana fyrir söluna á Laugum til byggingar íþróttamannvirkja í Búðardal, en lengi hefur legið fyrir að byggja þar íþróttahús og sundlag. Sala þessara eigna var ein forsenda þess að hægt yrði að setja þær framkvæmdir á dagskrá. Nú þegar viðræðum hefur verið slitið segir Sveinn ljóst að ekkert verði af þeim áformum að sinni. „Sveitarfélaginu er ókleift að fara í þá framkvæmd án þess að afla þessa fjár. Eðlilega fara þau áform því á ís í bili,“ segir hann.

Aðspurður kveðst Sveinn ekki gera ráð fyrir að eignirnar verði auglýstar aftur fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar. „Einn fundur er eftir í sveitarstjórn á yfirstandandi kjörtímabili og ég á ekki von á að ákveðið verði að auglýsa eignirnar að sinni. Það yrði þá gert eftir kosningar, ef ný sveitarstjórn vill selja eignirnar,“ segir Sveinn Pálsson að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir