Helgi Bjarnason.

Fjallar um íþróttamót Borgfirðinga á bökkum Hvítár

Í sumarbyrjun, þriðjudaginn 24. apríl næstkomandi, flytur Helgi Bjarnason blaðamaður fyrirlestur í Bókhlöðu Snorrastofu um íþróttamótin, sem haldin voru á Hvítárbakka og Ferjukotsbökkum og sundkeppni sem fram fór um árabil í Hvítá og Norðurá. Segir þar af blöndu skemmtunar og menningar, sem héraðsmenn stóðu fyrir og nefnir Helgi undirheiti fyrirlestursins, “héraðsfólk sameinast í skemmtun, menningu og íþróttum”. Íþróttakeppni þessi átti sér nokkra sérstöðu á landsvísu og þá verður einnig sagt frá nokkrum íþróttamönnum héraðsins.

Helgi Bjarnason er 64 ára að aldri, frá Laugalandi í Stafholtstungum. Hann stundaði íþróttir og var í forystu ungmennafélagsstarfs í Stafholtstungum, Borgarnesi og Ungmennasambandi Borgarfjarðar á sínum betri árum. Hann hefur starfað lengi sem blaðamaður við Morgunblaðið. Helgi hefur skrifað greinar um sögu íþróttamóta Borgarfjarðar fyrir Borgfirðingabók. Fyrri hlutinn birtist í bókinni 2016 og seinni hlutinni í bókinni sem væntanleg er á næstunni.

Fyrirlesturinn hefst að venju kl. 20:30 þar sem boðið er til kaffiveitinga og umræðna. Aðgangseyrir er kr. 500 og Snorrastofa tekur fagnandi á móti heimamanni, sem hefur lagt sig eftir að rannsaka og skrá þennan merkilega þátt í sögu Borgarfjarðarhéraðs.

-fréttatilkynning

Líkar þetta

Fleiri fréttir