Ísólfur Haraldsson við Íþróttahúsið á Vesturgötu.

Söngkeppni framhaldsskólanna verður á Akranesi 28. apríl

Söngkeppni framhaldsskólanna verður haldin í Íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi laugadaginn 28. apríl. Fyrr í vetur hafði keppnin verið blásin af vegna ótta þáverandi rekstraraðila við taprekstur. Nú hafa hins vegar Vinir hallarinnar á Akranesi tekið að sér að blása nýju lífi í keppnina og verður hún því haldin eftir tíu daga. Í ár eru 23 framhaldsskólar skráðir til keppni og er markmið allra sem koma að Söngkeppninni, að hún verði sú allra glæsilegasta til þessa. Sýnt verður beint frá keppninni í sjónvarpi.

Það er Ísólfur Haraldsson og hans fólk hjá Vinum hallarinnar sem tók að sér að undirbúa keppnina. „Seint að kvöldi miðvikudagsins 11. apríl höfðu þau hjá Sambandi íslenskra framhaldsskóla (SÍF) samband og spurðu hvort við værum tilbúin að halda keppnina. Ég þurfti nokkrar mínútur til að hugsa málið en ákvað strax um nóttina að þetta væri alltof gott tækifæri til að láta ekki reyna á það. Gaf því jákvætt svar með fyrirvara um að við fengjum íþróttahúsið leigt og hljómsveit og allt annað sem til þarf. Á fimmtudaginn fór svo allt á fullt við áætlanagerð og undirbúning og nú stefnir allt í að Skagamenn standi fyrir flottustu Söngkeppni framhaldsskólanna sem haldin hefur verið,“ segir Ísólfur í samtali við Skessuhorn.

 

Allir jákvæðir

Ísólfur segir að Vinir hallarinnar séu vel tengdir inn í skemmtanabransann, það sé í raun lykilatriði til að hægt sé að gera svona lagað með einungis hálfs mánaðar fyrirvara. „Það hjálpar líka til að maður er spennufíkill inn að beini,“ segir hann og hlær. „Nei, án gríns þá hafa allir, og þá meina ég allir, verið ótrúlega jákvæðir og tilbúnir til að leggja hönd á plóg til að þetta verkefni geti tekist. Strax var farið að afla bakhjarla í formi styrktar- og kostunaraðila, skipuleggja gistingu, leysa tæknileg atriði, fá heimafólk með í lið, semja um útsendingu og allt sem svona ævintýri fylgir. Það liggur ekki alveg fyrir enn á hvaða sjónvarpsstöð þetta verður sýnt, en allavega er búið að festa útsendingarbíl, ljósleiðarinn er til staðar og þetta mun því leysast,“ segir Ísólfur.

Búast má við fjölmenni á Akranesi vegna keppninnar. Alls taka 23 skólar þátt og því má reikna með vel á annað þúsund gestum í bæinn. Selt verður inn á skemmtunina en miðaverði verður að sögn Ísólfs stillt í hóf. „Við gerum einnig ráð fyrir að heimamenn geti keypt miða og fylgst með keppninni á Vesturgötunni. Við reiknum með að generalprufa verði klukkan 13 á laugardeginum og að allir sem að þessu koma borði síðan saman síðdegis; keppendur, tæknifólk og annað starfsfólk. Klukkan 20 hefst svo keppnin og útsending frá henni í beinni.“

Ísólfur segir að Fjölbrautaskóli Vesturlands, starfsfólk íþróttahússins og fólk víðs vegar í samfélaginu leggist á eitt við framkvæmdina. „Það eru allir á því að samfélagið hér á Akranesi leysi þetta vel úr hendi og að keppnin og framkvæmd hennar verði staðnum til sóma. Söngkeppni framhaldsskólanna byggir á áratuga hefð og í henni hafa margir af fremstu söngvurum landsins stigið sín fyrstu skref á ferlinum. Auðvitað er svo ætlun okkar að tryggja þessa keppni áfram á Akranesi. Ef okkur tekst að framkvæma þetta verkefni okkur til sóma á hálfum mánuði, þá ættum við að ráða við að gera það að árlegum viðburði,“ segir Ísólfur að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir

Látrabjarg er nú friðlýst

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hefur skrifað undir plagg til friðlýsingar Látrabjargs. Viðstaddir undirskriftina voru fulltrúar Bjargtanga, félags land-... Lesa meira