Helga Jensína ráðin skólastjóri GBF

Helga Jensína Svavarsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Grunnskóla Borgarfjarðar, en Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir sagði í vetur starfi sínu lausu og hættir í vor. Helga Jensína er grunnskólakennari að mennt og búsett á Vatnshömrum í Andakíl. Á starfsferli sínum hefur hún kennt við Andakílsskóla á Hvanneyri, við Ingunnarskóla í Grafarholti, Grunnskólann í Borgarnesi og frá árinu 2012 við Grunnskóla Borgarfjarðar þar sem hún hefur verið deildarstjóri. Helga Jensína er einnig sundkennari og hefur kennt ungbarnasund og verið með sundnámskeið og sundþjálfun í Borgarnesi. Hún hefur í vetur verið í námsleyfi og er nú að ljúka meistaragráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnun menntastofnana.

Grunnskóli Borgarfjarðar starfar í uppsveitum Borgarfjarðar og er þriggja deilda skóli; á Hvanneyri, Varmalandi og Kleppjárnsreykjum. Helga Jensína kveðst í samtali við Skessuhorn vera full tilhlökkunar að taka við þessu starfi og ekki síst að starfa með öllu því góða fólki sem sem starfar hjá Grunnskóla Borgarfjarðar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir