Liðsmenn Team Rynkeby Ísland í þann mund að leggja af stað frá Jaðarsbökkum. Ljósm. gsg.

Team Rynkeby Ísland æfði á Akranesi og í Hvalfirði

Síðastliðinn laugardag var hjólalið Team Rynkeby Ísland á æfingu á Akranesi og í nágrenni. Lagt var að stað að morgni frá Íþróttamiðstöðinni á Jaðarsbökkum og hjólað inn að gamla Botnsskála í Hvalfirði og þaðan til baka. Samtals rúmlega 100 kílómetra leið. Um var að ræða eina af skylduæfingum liðsins, en að jafnaði er æft tvisvar sinnum í viku. „Liðið lét þennan svala aprílmorgun ekki á sig fá, en hitastigið fór niður í mínus eina gráðu á leiðinni. Að æfingu lokinni var síðan slakað á í heitu pottunum á Jaðarsbökkum,“ segir Guðrún Gísladóttir, einn liðsmanna í samtali við Skessuhorn.

Team Reynkeby er samnorrænt góðgerðarverkefni en liðsmenn hjóla á hverju ári til Parísar til styrktar börnum með erfiða sjúkdóma. Að þessu sinni verða um 1900 hjólarar í 48 liðum frá öllum Norðurlöndunum, ásamt 450 manna aðstoðarliði. Þetta er í annað sinn sem Ísland er með lið og samanstendur það af 40 hjólurum og átta manna aðstoðarliði sem sér meðal annars um að gefa liðinu að borða.

Liðin leggja af stað frá mismunandi stöðum en íslenska liðið leggur af stað frá Kolding í Danmörku 30. júní og kemur ásamt öllum hinum liðunum til Parísar 7. júlí. Þá hafa liðsmenn hjólað ríflega 1200 km en lengsta dagleiðin er rúmlega 200 km. Þess má geta að liðið hjólar saman alla leiðina og því þurfa allir að vera vel undirbúnir fyrir það. „Til að undirbúa sig sem best er reiknað með að hver liðsmaður hjóli 2500 km áður en lagt er af stað til Parísar,“ segir Guðrún.

Íslenska liðið samanstendur af fólki á öllum aldri af höfuðborgarsvæðinu, Norðurlandi og fjórum frá Akranesi. Liðsmenn Team Rynkeby greiða allan kostnað af þátttökunni sjálfir, þar með taldar ferðir og búnað, en öll 48 liðin eru á eins hjólum og í eins hjólafatnaði. Íslenska liðið safnar styrkjum sem allir renna til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna á Íslandi en á síðasta ári söfnuðust rúmlega 9,4 milljónir króna. „Liðið mun á næstu vikum æfa af fullum krafti samhliða því að leita eftir styrkjum til fyrirtækja og einstaklinga í þetta mikilvæga verkefni,“ segir Guðrún Gísladóttir að endingu.

Hægt er að finna frekari upplýsingar á heimasíðunni www.teamrynkeby.is og á facebook síðunni www.facebook.com/TeamRynkebyIsland.

Líkar þetta

Fleiri fréttir