Tankbíllinn góði. Ljósm. tfk.

Tankbíll til Grundarfjarðar fyrir afrekstur af dagatalssölu

Starfsmannafélag Slökkviliðs Grundarfjarðar keypti á dögunum gamlan tankbíl frá Brunavörnum Árnessýslu. Tankbíllinn er af gerðinni Iveco og er framleiddur árið 1985 og er því löglegur fornbíll. Tankurinn á honum er 12 þúsund lítra og munar um minna þegar mikið liggur við. Í vetur voru aðstæður oft þannig að nánast ómöulegt var að komast í vatnsból í dreifbýlinu í kringum Grundarfjörð vegna frosthörku og snjóalaga og því hefði þessi bíll verið nauðsynlegur ef eldur hefði orðið laus í sveitinni. Það var starfsmannafélagið sem fjárfesti í bílnum og færir slökkviliðinu að gjöf, en strákarnir í slökkviliðinu hafa verið duglegir að safna peningum með útgáfu dagatals undanfarin ár. Alltaf hefur ágóðinn farið í uppbyggingu á slökkviliðinu og engin breyting var á því í ár.

Líkar þetta

Fleiri fréttir