Niðurrif efnisgeymslu Sementsverksmiðjunnar hafið

Niðurrif mannvirkja Sementsverksmiðjunnar á Akranesi gengur vel og eru framkvæmdir á undan áætlun miðað við verksamning við Work North ehf. Í dag og til 21. apríl næstkomandi verður stóra efnisgeymlan samhliða Faxabraut rifin og af þeim sökum verður götunni lokað fyrir allri umferð á meðan. Líkur eru til að búið verði fyrir næstu mánaðamót að fella þau mannvirki verksmiðjunnar sem útboðið nær yfir í þessum áfanga. Í framhaldinu verður unnið við að mylja steypu, hreinsa járn úr steypubrotum og koma þeim fyrir í sandgryfju. Brotmálmar verða unnir á athafnasvæði verktaka og í framhaldi þess skipað út frá Akraneshöfn.

Innan tíðar verður framkvæmd könnun á vef Akraneskaupstaðar þar sem íbúar í bæjarfélaginu geta gefið álit sitt á því hvort fella eigi stromp sementsverksmiðjunnar. Það verður kynnt sérstaklega. Samkvæmt heimildum Skessuhorns er verulega minnkandi áhugi meðal íbúa að strompurinn verði látinn standa. Það mun þó koma í ljós þegar hugur fólks til þess verður kannaður sérstaklega.

Líkar þetta

Fleiri fréttir