Vogur hættir að taka við ungmennum undir 18 ára

„Það er ákvörðun okkar hjá meðferðarsviði og framkvæmdastjórn SÁÁ að hætta að taka inn á sjúkrahúsið Vog ólögráða einstaklinga og miða ungmennameðferðina við 18 ára,“ segir í tilkynningu frá SÁÁ. „Augljós krafa um að ólögráða einstaklingar geti ekki verið í sama rými og fullorðnir í meðferð er meira en sjúkrahúsið Vogur getur orðið við að svo stöddu. Því er ekki stætt á að halda áfram meðferð þeirra þar.“ Þá segir í tilkynningu að það að eitt barn hafi hugsanlega orðið fyrir skaða innan veggja spítalans sé einu barni of mikið.

„SÁÁ setur öryggi sjúklinga sinna í fyrsta sæti og vill með þessum aðgerðum axla ábyrgð. Sjúkrahúsið Vogur mun í samráði við ráðuneytið sinna áfram þjónustu við þennan viðkvæma hóp þar til nýtt úrræði er í augsýn.“ Þá segir að óskað hafi verið eftir leiðbeiningum heilbrigðisráðherra um hvernig þetta skref verður tekið þar sem brýnt er að ólögráða með vanda af fíkn fái áfram viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Samráðsfundur er fyrirhugaður til að ákveða framtíðarfyrirkomulag og næstu skref.

Líkar þetta

Fleiri fréttir