Þakklát að hafa fengið að leiða skólastarf með góðu fólki

Ingibjörg Inga Guðmundsdóttir lætur af störfum sem skólastjóri Grunnskóla Borgarfjarðar í vor eftir rúman áratug í starfi. Hún var ráðin skólastjóri Varmalandsskóla árið 2007 og hóf störf þá um haustið. Hún varð síðan skólastjóri Grunnskóla Borgarfjarðar árið 2010 eftir sameiningu skólanna í uppsveitum Borgarfjarðar. Deildir skólans eru þrjár; á Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi. „Tilfinningar mínar eru að sjálfsögðu blendnar. Ég á eftir að sjá á eftir starfsstöðvum Grunnskóla Borgarfjarðar, vinnufélögum, nemendum mínum og skólasamfélaginu í heild og öllu því góða fólki sem ég hef fengið tækifæri til að vinna með, auk allra annarra sem komið hafa að skólamálum í Borgarbyggð með einum eða öðrum hætti. Skólinn hefur átt hug minn allan. Tíma mínum þessi ár hefur að langmestu leyti verið varið í skólastarfið, þannig að breytingin mun vonandi þýða aðeins meiri frítíma og tækifæri til að sinna áhugamálum,“ segir Ingibjörg Inga í samtali við Skessuhorn. Hún kveðst ekki hafa ákveðið hvað hún tekur sér fyrir hendur en ætlar að byrja að taka sér frí. „En ég er til í ýmislegt ef eitthvað spennandi býðst. Ég hef fulla starfsorku, haldgóða reynslu og menntun sem vonandi nýtist mér og einhverjum  öðrum ef verða vill,“ segir hún.

Nánar er rætt við Ingu í Skessuhorni vikunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir