Svipmynd af æfingu. Ljósm. kgk.

Söngleikurinn Smellur settur upp í Grundaskóla

Nemendur á unglingastigi í Grundaskóla á Akranesi standa í ströngu þessa dagana við uppsetningu á söngleiknum Smelli sem verður frumsýndur í Bíóhöllinni laugardaginn 27. apríl. Er fyrir löngu orðin hefð fyrir að nemendur á unglingastigi setji upp söngleik sem þennan en það hefur verið gert þriðja hvert ár frá árinu 2003 og er þessi söngleikur sá sjöundi í röðinni. Eins og í hin sex skiptin eru það Einar Viðarsson, Gunnar Sturla Hervarsson og Flosi Einarsson sem semja söngleikinn, en þeir eru allir kennarar við Grundaskóla. „Þessi söngleikur gerist á níunda áratugnum. Hann byggir ekki á neinu þekktu verki heldur kemur algjörlega úr okkar eigin hugarheimi og er þetta okkar leið til að svala okkar sköpunarþörf,“ segir Einar í samtali við Skessuhorn. „Við semjum hvert og eitt atriði í verkinu alveg frá A til Ö, hvort sem það er handrit, textar eða lög,“ bætir hann við.

 

Æfingar ganga mjög vel

Aðspurður segir Einar að um 80 nemendur úr 8.-10. bekk komi að söngleiknum með einum eða öðrum hætti. „Það eru um 40 nemendur sem fara á svið og svo er annar eins hópur sem sér um hin ýmsu störf tengd sýningunni. Það er ekki einfalt að setja svona sýningu á fjalirnar og því mörgum verkefnum sem þarf að sinna,“ segir Einar. Æfingar hjá krökkunum hófust formlega um miðjan mars og hafa að sögn Einars gengið mjög vel. „Núna er svo að færast enn meiri metnaður í æfingarnar og við förum að vera lengur fram eftir degi og fram á kvöld þegar líður á aprílmánuð. Við skiptum æfingum núna niður í leik,- dans- og söngæfingar og svo þegar líður á förum við að blanda þessu meira saman og æfa verkið í heild,“ segir Einar og bætir því við að nemendur hafi aldrei verið áhugasamari en nú.

Söngleikir fyrri ára hafa allir verið vel sóttir og viðtökur bæjarbúa og annarra gesta verið mjög góðar. „Við höfum í gegnum árin verið mjög ánægð með hversu vel er mætt á þessar sýningar hjá okkur og margir hafa séð þær allar. Við gerum ráð fyrir að vera með tíu sýningar í ár en þeim gæti vel fjölgað. Síðast sýndum við þrettán sinnum og það myndi ekki koma á óvart ef það yrði svipað núna,“ segir Einar og hvetur alla til koma og sjá þessa hæfileikaríku krakka á sviðinu í lok mánaðarins.

Líkar þetta

Fleiri fréttir