Námskeið til að auka færni í kjarasamningagerð

Bryndís Hlöðversdóttir ríkissáttasemjari efnir til þriggja daga námsstefnu um samningagerð fyrir íslenskt samninganefndafólk dagana 2.- 4. maí á Bifröst í Borgarfirði. Þetta er í fyrsta skipti sem embættið gengst fyrir slíkri námstefnu í þessari mynd en hún verður endurtekin í byrjun október. Námsstefnan er hluti af umbótaverkefni á vegum embættisins og miðar að því bæta verklag við kjarasamningagerð með því að efla færni samninganefndafólks, auka fagmennsku við samningaborðið og stuðla að órofa samningaferli.

Alls eru um 300 manns frá stéttarfélögum og launagreiðendum sem koma að hverri kjarasamningalotu hér á landi. Þetta er fólk með ólíka reynslu og bakgrunn og samninganefndirnar eru einnig ólíkar að stærð og eru í forsvari fyrir misstóra hópa. Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) hefur mælt með því að samningsaðilar hafi aðgang að sameiginlegri fræðslu um samningagerð og með námsstefnu ríkissáttasemjara er brugðist við því og þannig stuðlað að vandaðri vinnu við samningagerðina.

Á námstefnunni mun gefast einstakt tækifæri til að læra nýjustu aðferðir, deila reynslu og efla marksækni og fagmennsku við samningaborðið með það að markmiði að bæta vinnubrögðin við kjarasamningagerðina. Meðal annars verður fjallað um leikreglur á vinnumarkaði, kröfugerð, góða samningahætti og teymisvinnu auk þess sem farið verður yfir ábyrgð samningarmanna og mikilvægi góðra og yfirvegaðra samskipta í samningaferlinu.

Tímasetning námstefnunnar er meðal annars valin með hliðsjón af því að 80 kjarasamningar renna út í desember n.k. og 149 til viðbótar í mars 2019. Stefnt er að því að námsstefna í samningagerð verði reglulega í boði á vegum embættis ríkissáttasemjara enda er yfirleitt mikil endurnýjun í samninganefndum samningsaðila.

Skráning á námsstefnuna stendur nú yfir á vef ríkissáttasemjara og má þar nálgast dagskrá námstefnunnar.

Líkar þetta

Fleiri fréttir