Afkoma Snæfellsbæjar mun betri en áætlað hafði verið

Ársreikningur Snæfellsbæjar fyrir árið 2017 var til fyrri umræða í bæjarstjórn miðvikudaginn 11. apríl en verður tekinn til síðari umræða fimmtudaginn 3. maí nk. Rekstur Snæfellsbæjar gekk vel á árinu og var rekstrarniðurstaðan töluvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, eða um 262,9 milljónir króna í samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu upp á 31,4 milljón króna. Útsvar er nánast það sama milli áranna 2016 og 2017, eða rúmar 909 milljónir króna. Ástæðu ákvæðrar rekstrarniðurstöðu má rekja til mun hærri framlaga til Snæfellsbæjar frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 392,6 milljónum króna úr sjóðnum en niðurstaðan varð hins vegar framlög upp á 522,1 milljónir króna. Sjálfur rekstur Snæfellsbæjar var nánast á pari við fjárhagsáætlun og athygli vekur að allar stofnanir Snæfellsbæjar skiluðu rekstri á eða undir áætlun.

Meðal helstu lykiltalna úr ársreikningi kemur fram að rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu um 2.314,2 milljónum króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A- og B-hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum um 2.108,4 milljónum króna. Rekstrartekjur A- hluta námu um 1.876 milljónum en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir að tekjurnar yrðu 1.670 milljónir. Rekstrarniðurstaða A-hluta var jákvæð upp á 137,1 milljónir en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu upp á 47,4 milljónir. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 3.311 millj. króna samkvæmt efnahagsreikningi en þar af nam eigið fé A-hluta 2.550 millj. króna.

Laun og launatengd gjöld sveitarfélagsins námu 1.153,4 milljónum króna en starfsmannafjöldi sveitarfélagsins var 136 stöðugildi í árslok. Veltufé frá rekstri var 237 milljónir króna og veltufjárhlutfall er 0,93. Handbært frá rekstri var 245 millj. króna.

Heildareignir bæjarsjóðs námu um 3.870 millj. króna og heildareignir sveitarfélagsins í samanteknum ársreikningi um 5.072 millj. króna í árslok 2017. Heildarskuldir bæjarsjóðs námu um 1.320 milljónum króna og í samanteknum ársreikningi um 1.761 millj. króna, og hækkuðu þar með milli ára um 112 milljónir. Eigið fé bæjarsjóðs nam um 2.549,8 milljón króna og eigið fé í samanteknum reikningsskilum nam 3.311 milljón í árslok 2017. Eiginfjárhlutfall er 65,89% á á árinu 2017 en var 65,92% árið áður.

Snæfellsbær fjárfesti á árinu fyrir 535 milljónir í varanlegum rekstrarfjármunum og tók ný lán á árinu 2017 upp á 220 milljónir. Greidd voru niður lán að fjárhæð 143,9 milljónir.

Álagningarhlutfall útsvars var 14,52%. Álagningahlutfall fasteignaskatts nam 0,44% á íbúðarhúsnæði og álagningarhlutfall á aðrar fasteignir nam 1,55%.

Líkar þetta

Fleiri fréttir