Svipmynd úr bás KB á hátíðinni. Ljósm. arg.

Vel heppnuð Mýraeldahátíð um helgina

Mjög svo vel heppnuð Mýraeldahátíð var haldin í blíðskaparveðri í reiðhöllina Faxaborg í Borgarnesi síðastliðinn laugardag. Hátíðin er haldin annað hvert ár af Búnaðarfélagi Mýramanna til að minnast sinubrunans mikla í apríl 2006. „Við erum afskaplega ánægð með hátíðina og hversu margir komu. Ég myndi áætla að yfir þúsund manns hafi komið í Faxaborg og einnig var mjög góð mæting á kvöldvökuna og ballið í Lyngbrekku um kvöldið. Ég hef ekki heyrt annað en gestir hafi verið ánægðir og hoppukastalinn fyrir börnin hitti beint í mark,“ segir Sigurjón Helgason bóndi á Mel og formaður Búnaðarfélags Mýramanna í samtali við Skessuhorn. Fjölmörg fyrirtæki kynntu vörur sínar og þjónustu í Faxaborg. „Við erum gríðarlega þakklát öllum þeim fyrirtækjum sem tóku þátt og öllum þeim sem komu að hátíðinni á einn eða annan hátt,“ segir Sigurjón.

Venju samkvæmt voru veittar viðurkenningar til félagsmanna sem hafa í gegnum árin unnið gott starf innan Búnaðarfélagsins. „Við veitum þessar viðurkenningar til að heiðra félaga sem hafa unnið gott starf í félagsmálum á starfssvæðinu. Að þessu sinni voru það þeir Guðbrandur á Staðarhrauni, Sigurjón á Valbjarnarvöllum og Magnús í Krossnesi sem fengu viðurkenningar. Þeir hafa allir gegnt mikilvægum störfum fyrir félagið í mörg ár og eru vel að þessum heiðri komnir,“ segir Sigurjón.

Sjá auk þess fjölda mynda í Skessuhorni sem kom út í dag.

Líkar þetta

Fleiri fréttir