Guðmundur Páll Jónsson og Jóhannes Simonsen.

Tillaga um breytt fyrirkomulag strandveiða er umdeild

Fyrir Alþingi liggur nú að afgreiða nefndarfrumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða sem snertir strandveiðar. Lilja Rafney Magnúsdóttir formaður nefndarinnar er fyrsti flutningsmaður. Breytingin sem um ræðir er sett til bráðabirgða og verður bætt við svohljóðandi ákvæði: „Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr. a skal ráðherra til 31. ágúst 2018 takmarka strandveiðar við 12 veiðidaga fyrir hvert skip, innan hvers mánaðar, mánuðina maí, júní, júlí og ágúst. Fiskistofa getur með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðvað strandveiðar þegar sýnt er að heildarafli strandveiðibáta fari umfram það magn, sem ráðstafað er til strandveiða samkvæmt reglugerð nr. 607/2017 um veiðar í atvinnuskyni fiskveiðiárið 2017/2018. Heimilt er hverju strandveiðiskipi að landa ufsa sem VS-afla, og telst sá afli ekki til hámarksafla skv. 5. tölul. 5. mgr. 6. gr. a.“ Gert er ráð fyrir að frumvarpið verði tekið til afgreiðslu á næstu dögum eða vikum, enda eru í dag réttar þrjár vikur þar til strandveiðitímabilið hefst.

Frumvarpið mætir harðri andstöðu félaga smábátasjómanna, einkum á sunnan- og suðvestanverðu landinu. Ganga menn svo langt að segja það jafnvel gæti virkað sem náðarhögg fyrir útgerð, til dæmis á Akranesi þar sem greinin hefur átt mjög í vök að verjast. Einkum óttast menn að smábátasjómenn flytji sig um set og muni í sumar veiða á A svæðinu, þar sem fisks er helst von alla þá mánuði sem veiðar eru leyfðar. Þar með væri ógnað tilverurétti fiskmarkaða t.d. á Akranesi.

Í Skessuhorni í dag er rætt við Jóhannes Simonsen formann smábátafélagsins Sæljóns og Guðmund Pál Jónsson ritara félagsins.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir