Hjónin Jorge Ricardo Cabrera og Alicia Guerrero, eigendur veitingastaðarins La Colina í Borgarnesi. Ljósm. kgk.

„Þetta stríð er að drepa okkur úr áhyggjum“

Fyrir bráðum tveimur árum síðan opnuðu hjónin Jorge Ricardo Cabrera og Alicia Guerrero veitingastaðinn La Colina í Borgarnesi. Þar bjóða þau upp á eldbakaðar pitsur og gengur reksturinn vel. Með tíð og tíma langar þau að bæta við réttum frá heimalandinu Kólumbíu og gera matarhefð landsins hátt undir höfði. En það er ekki víst að þau fái að sjá þann draum sinn rætast. Erfiðlega hefur gengið að fá starfsfólk, ekki vegna þess að enginn sækir um, heldur vegna þess að Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun synja hverri umsókn á fætur annarri um dvalar- og atvinnuleyfi fyrir starfsfólk af erlendum uppruna. Þegar þau hafa krafið stofnanirnar um skýringar er fátt um svör og þau sem þó berast koma ekki fyrr en eftir dúk og disk. Þau segja að allar umsóknir hafi verið eftir bókinni en engu að síður hefur þeim orðið lítt ágengt. Er svo komið að þau hafa leitað aðstoðar lögfræðings vegna málsins en það hefur engan árangur borið ennþá.

 

Fá ekki starfsfólk

„Þetta stríð er að drepa okkur úr áhyggjum,“ segir Ricardo þegar blaðamaður hitti þau hjónin á La Colina á mánudagsmorgun. Staðurinn opnar ekki fyrr en síðdegis og því er ró og næði í matsalnum. Nýverið luku þau við að stækka salinn svo þau ættu auðveldara um vik að taka á móti hópum. Á La Colina er leyfi fyrir 100 manns en stólarnir eru rúmlega 70. „Það hefur gengið mjög vel og er alltaf aukning. Um 70% af okkar viðskiptavinum eru heimamenn. Við erum ánægð með það því það segir okkur að heimamenn séu ánægðir og vilji hafa staðinn okkar hérna,“ segir Ricardo. „En það sem gerir okkur erfitt fyrir er að við fáum ekki starfsfólk,“ segir hann. Eðli málsins samkvæmt vildu þau helst ráða vanan starfskraft en vanir pitsubakarar með reynslu af eldofnum eru ekki á lausu í Borgarnesi frekar en víðast hvar annars staðar á Íslandi. Landlægur skortur á starfsfólki gerir þeim síðan erfiðara um vik að fá starfskrafta yfirleitt, vana eða óvana. Þess vegna hafa þau, eins og svo margir aðrir, brugðið á það ráð að leita út fyrir landsteinana eftir starfsfólki. Þá fyrst hefjast vandræðin fyrir alvöru. „Í meira en ár höfum við staðið í stríði við við Vinnumálastofnun, Útlendingastofnun, velferðarráðuneytið og höfum lítið sem ekkert fengið af svörum annað en synjanir á leyfisumsóknum,“ segja þau.

 

Baráttu þeirra LaColina hjóna við kerfið er lýst í ítarlegu viðtali sem birtist í Skessuhorni sem kom út í dag.

 

Líkar þetta

Fleiri fréttir