Siguroddur ætlar vafalítið að verja tölttitilinn. Ljósm. úr safni iss.

Lokamót Vesturlandsdeildarinnar verður annað kvöld

Keppt var í fimmgangi í Vesturlandsdeildinni í hestaíþróttum í Faxaborg síðastliðinn fimmtudag. Þau Þytur og Randi Holaker frá Skáney vörðu með nokkrum yfirburðum verðlaunasæti sitt frá síðasta ári í þessari grein. Vesturlandsdeildin er eins og kunnugt er einstaklings- og liðakeppni en 34 knapar mynda sjö, fjögurra og fimm manna lið, sem etja kappi í sex greinum hestaíþrótta. Lokamót deildarinnar fer svo fram á morgun, fimmtudaginn 12. apríl, í Faxaborg. Þá verður keppt í tveimur greinum; tölti og flugskeiði í boði Leiknis hestakerra og má búast við mikilli spennu í hvorri grein fyrir sig sem og í einstaklings- og liðakeppninni. Húsið verður opnað klukkan 19.00 og fyrsti hestur mætir stundvíslega kl. 20.00 á gólfið. Miðaverð er 1000 krónur en frítt inn fyrir 10 ára og yngri.

Siguroddur Pétursson sigraði í töltinu í fyrra og Konráð Valur Sveinsson fór hraðast allra í gegnum höllina. Von er á báðum þessum köppum og má reikna með því að þeir leggi allt undir til að endurtaka leikinn. Auk þess verður happdrætti og aðalvinningur kvöldsins folatollur undir Auð frá Lundum II auk annarra vinninga. Mjög takmarkað magn af miðum er í boði, en þeir eru seldir við innganginn. Ráslisti á mótinu var birtur í gærkvöldi.

Líkar þetta

Fleiri fréttir