Hillir undir að endurbætur hjúkrunarrýma í Stykkishólmi geti hafist

Sigurður Páll Jónsson þingmaður Miðflokksins í Norðvesturkjördæmi og bæjarfulltrúi í Stykkishólmi bar á þingi á mánudaginn upp fyrirspurn til heilbrigðisráðherra vegna búsetu eldri borgara í Stykkishólmi. Minnti hann á að árið 2012 hafi verið undirrituð viljayfirlýsing milli þáverandi heilbrigðisráðherra og forseta bæjarstjórnar í Stykkishólmi um sameiningu hjúkrunarrýmis og dvalarheimilis við sjúkrahús Stykkishólms undir sama þaki og St. Franciskusspítalinn. Í umræðum um málið sagði Sigurður Páll m.a. að eldri borgarar í Stykkishólmi búi í 12–14 fm kytrum sem eru á undanþágu, þar er jafnvel músagangur og því ekki fólki bjóðandi.

„Gerð var kostnaðaráætlun sem hljóðaði á þeim tíma upp á 1,3 milljarða. Þá var miðað við 35 fm rými sem breyttist seinna í 27 fm. Bréf kom frá fjármálaskrifstofu um að málið yrði tekið út af borðinu vegna þess að kostnaður væri of mikill miðað við fjölda íbúa og annað slíkt. Á þeim tíma var bágt ástand í ríkiskassanum,“ rifjaði Sigurður Páll upp. Gat hann þess að eftir að ný bæjarstjórn tók við í Stykkishólmi 2014 hafi málið verið endurvakið við ráðuneytið og farið í endurmat á þessum rýmum og verkefninu í heild á þeim forsendum að 27 fm herbergi myndu duga. Því er áætlun um 18 hjúkrunarrými og tvö dvalarrými. „Gerð var önnur kostnaðaráætlun. Hún lækkaði um helming og er um 630–650 milljónir í dag. Málið er á borði heilbrigðisráðherra. 100 milljónir voru á fjárlögum 2016. Þær verða ekki nýttar vegna breyttra laga um opinber fjármál. Ég spyr: Getur ráðherra upplýst hvar þetta mál er statt í dag,“ sagði Sigurður Páll.

Í svari Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra kom m.a. fram: „Ánægjulegt er frá því að segja að um þetta er búið í nýrri fjármálaáætlun eins og hún er lögð fram fyrir þingið. Ég vænti þess að fjármagnið sem um ræðir sem þarf til að breyta þessum rýmum, þ.e. sjúkrarýmunum, verði til þess að geta síðan ráðist í hjúkrunarrýmahlutann og að hægt verði að fara í þetta af fullum krafti árið 2020 og svo 2021,“ sagði ráðherra. Hún bætti við: „Það er ánægjulegt að geta svarað með afgerandi hætti svona fyrirspurn, en það vill svo til að þarna var um að ræða mjög vel rökstutt mál sem sýnir bæði húsinu sóma og sveitarfélaginu, en kemur ekki síður til móts við aðstöðu þeirra sem þurfa á hjúkrunarrýmum að halda og annarri heilbrigðisþjónustu á svæðinu,“ sagði Svandís. Hún bætti við í síðari hluta svars við fyrirspurn Sigurðar Páls: „Samkvæmt mínum skilningi er ekkert því til fyrirstöðu að hefja framkvæmdir síðar á þessu ári eða snemma á því næsta, að því gefnu að Alþingi afgreiði fjármálaáætlun,“ sagði Svandís Svavarsdóttir.

Líkar þetta

Fleiri fréttir