Alþjóðlegt meistaramót rafbíla haldið á Íslandi

Akstursíþróttasamband Íslands (AKÍS) hefur gengið frá samningum við Alþjóða aksturssambandið (FIA) þess efnis að ein umferð í alþjóðlegu meistaramóti rafbíla FIA í nákvæmnisakstri, oft kallað eRally (FIA Electric and New Energy Championship), verði haldið á Íslandi í september á þessu ári. ,,Það kom okkur skemmtilega á óvart hve mikill áhugi reyndist vera á því hjá FIA að Ísland héldi eina umferð í meistaramóti rafbíla. Þegar samkomulag var loks í höfn var það okkur sannarlega mikil gleði, enda notkun rafbíla, orkuskipti í samgöngum og þær hliðarverkanir sem það kann að leiða af sér ofarlega á baugi á Íslandi um þessar mundir og raunar í heiminum öllum,” segir Tryggvi M Þórðarson formaður AKÍS.

Þessi rallykeppni er ekki eins og þær sem Íslendingar hafa vanist. eRally byggir á nákvæmnisakstri fyrirfram ákveðna leið, ávallt innan hámarkshraða á óbreyttum bifreiðum.  Á leiðinni eru mælistaðir þar sem bíllinn þarf að vera staddur á nákvæmlega réttri sekúndu annars missa keppendur stig. Samhliða keppninni stendur til að halda ráðstefnu um hvert stefnir í orkuskiptum í samgöngum hérlendis, hver eru hagræn áhrif þeirra skipta á breiðum grunni, hver eru umhverfisáhrifin bæði jákvæð og neikvæð.

Líkar þetta

Fleiri fréttir