Grundfirðingur SH. Ljósm. tfk.

Uppsagnir á Grundfirðingi SH 24

Línubáturinn Grundfirðingur SH 24 mun leggja að bryggju í Grundarfirði í síðasta skipti í lok maí næstkomandi. Búið er að segja upp allri áhöfn skipsins og verður því lagt í lok maí. Friðbjörn Ásbjörnsson, framkvæmdastjóri Soffaníasar Cecilssonar hf. sem gerir út skipið, sagði reksturinn hafa þyngst mikið á þessu ári. „Rekstargrundvöllur Grundfirðings  SH 24 er algjörlega brostinn,“ sagði Friðbjörn í stuttu spjalli við fréttaritara Skessuhorns. „Þetta eru margir þættir. Sterk króna, há veiðigjöld á þær fisktegundir sem skipið veiðir og svo höfum við verið í vandræðum með að manna skipið,“ segir Friðbjörn. „Veiðigjöldin fara úr 15,4 milljónum í 62,2 milljónir þannig að hækkunin er verulega íþyngjandi. Þetta er hækkun um 47 milljónir á milli ára og það er stór þáttur í því að staðan er eins og hún er,“ segir hann að endingu.

Líkar þetta

Fleiri fréttir